Áætla kostnað 5,3 milljarða

Borgarstjórn samþykkti í fyrra að endurnýja húsið og stækka.
Borgarstjórn samþykkti í fyrra að endurnýja húsið og stækka. mbl.is/sisi

Heildarkostnaður vegna breytinga og endurbóta á Grófarhúsi er áætlaður krónur 5.324.528.640.

Minnisblað, dagsett 8. október sl., var kynnt á síðasta fundi menningar- og íþróttaráðs Reykjavíkur. Þar kemur fram að nýtt kostnaðarmat sé í lokavinnslu hjá Eflu verkfræðistofu og fyrstu tölur sýni að verkefnið sé innan þeirra marka sem lagt var upp með og samþykkt var 22. júní í borgarstjórn í fyrra, eða 5,3 milljarðar króna.

Efla ætlar að framkvæmdakostnaður verði 4.159.788.000 kr. og kostnaður við hönnun og verkefnastjórn krónur 1.164.740.640. Fram kemur í kynningunni að við stjórn verkefnisins hafi athugasemdir verði teknar inn snemma í ferlinu til að koma í veg fyrir dýr mistök síðar.

Hönnunarteymið JVST hafi lagt mikinn metnað í að ná að endurnýta það sem hægt er og útfæri það á áhugaverðan hátt í uppfærðri hönnun. Hollenska fyrirtækið BOOT hafi gert úttekt og í kjölfarið unnið 400 blaðsíðna skýrslu þar sem fram kemur hvað hægt er að endurnýta og endurvinna úr núverandi húsnæði.

Fulltrúar meirihlutaflokkanna í menningar- og íþróttaráði bókuðu að hönnun Grófarhúss væri í spennandi farvegi. Sérstaklega var hrósað fyrir öflugt notendasamráð, mikla áherslu á endurnýtingu og fagleg vinnubrögð þar sem m.a. hönnun væri stöðugt uppfærð út frá kostnaðarmati. Þá væri stefnt að grænni fjármögnun.

Annar tónn var í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. „Þegar Borgarbókasafn, Borgarskjalasafn og Ljósmyndasafn Reykjavíkur fluttu í Grófarhús um síðustu aldamót, var ráðist í miklar og kostnaðarsamar endurbætur á húsinu í þágu safnanna. Grófarhús þjónar hlutverki sínu vel og er því ekki brýn þörf fyrir algera og fokdýra umbreytingu á húsinu eins og meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar stefnir að,“ bókuðu þeir.

Furðu sætti að slík framkvæmd væri sett í forgang vegna erfiðrar fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar og uppsafnaðrar viðhaldsskuldar sem næmi tugum milljarða króna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert