Mikil andstaða kom fram á opnum íbúafundi í Ásahreppi í Rangárvallasýslu í síðustu viku við áform um mikla uppbyggingu ferðaþjónustu á þremur jörðum við Hrútsvatn.
Fyrirtækið Steinar Resort ehf., sem á jarðirnar Ásmúlasel, Ásmúla 1B og Ásmúla 1C í Ásahreppi, áformar að byggja þar 220 herbergja hótel með baðlóni, allt að 165 stakstæð smáhýsi og allt að 55 starfsmannaíbúðir en áætlað er að um 80 manns starfi við þjónustuna.
Íbúafundurinn var haldinn að Laugalandi og einnig var hægt að tengjast honum á netinu með Teams. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var húsfyllir auk þess sem margir fylgdust með fundinum á netinu og allir þeir íbúar sem tjáðu sig á fundinum lýstu andstöðu við fyrirætlanir Steina Resort.
„Ég get staðfest að þetta mæltist ekki vel fyrir hjá þeim sem mættu á fundinn. Það mælti enginn með þessu og eðlilega hefur fólk áhyggjur af þeim áhrifum sem svona framkvæmdir kunna að hafa,“ sagði Valtýr Valtýsson sveitarstjóri Ásahrepps við Morgunblaðið.
Valtýr segir að ákveðið hafi verið að halda íbúafundinn til að leyfa þeim sem standa að verkefninu að kynna hugmyndir sínar áður en lengra er haldið. Hann sagði að málið yrði rætt í hreppsnefnd Ásahrepps næsta miðvikudag en það væri hreppsnefndarinnar að ákveða hvort skipulagslýsing, sem liggur fyrir, verði auglýst. Skipulagslýsingin gerir bæði ráð fyrir breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins og nýju deiliskipulagi fyrir jarðirnar þrjár.
Íbúar í Ásahreppi voru í september sl. 321 talsins. „Það sem menn þurfa að líta til er hvort innviðir sveitarfélagsins beri þessa uppbyggingu. Og síðan skiptir afstaða íbúa gríðarlega miklu máli. Þetta er landbúnaðarsvæði og þarna er stunduð mikil hestamennska þannig að það eru mörg sjónarmið sem taka þarf tillit til,“ sagði Valtýr.
Nánar má lesa um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins.