Áslaug: „Ég er stolt“

Áslaug Arna er háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna er háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segist stolt af þeim árangri sem hún hefur náð á kjörtímabilinu. Hún tekur ekki undir með þeim sem segja ríkisstjórnina hafa verið verklausa.

„Ég er stolt af þeim árangri sem ég hef náð á kjörtímabilinu og get ekki tekið undir verkleysi. Fjórða stoð efnahagslífsins er að skapa þúsundir nýrra starfa og stórauknar útflutningstekjur. Það eykur lífsgæði og fjölgar tækifærum,“ skrifar Áslaug Arna á Facebook-síðu sína. 

„Sparað milljarða með réttum hvötum

Þá rekur Áslaug þau mál sem hún hefur náð í gegn sem háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og barist fyrir.

„Gjörbreytt fjármögnun háskólanna, hvatar til árangurs og aukinna gæða, hvatar til fjarnáms, fjölgun nemenda í raunvísinda-, tækni- og heilbrigðisgreinum. Sameiningar háskóla. Að fella niður ábyrgðarmannakerfi námslána og boðað skólagjöld á nemendur utan EES. Tryggt jöfn tækifæri einkaskóla og opinberra. Sparað milljarða með réttum hvötum.

Samkeppnishæfni Íslands í nýsköpun eykst, hér er umhverfi fyrirtækja í nýsköpun með besta móti. Við höfum ýtt undir nýsköpun í heilbrigðiskerfinu með árangri fyrir fólk, bætt þjónustu, létt á starfsfólki og farið betur með fé. Sameinað sjóði og minnkað yfirbyggingu.

Unnið er að fyrstu aðgerðaráætlun Íslands í gervigreind, með gríðarlegum tækifærum og ég hef ítrekað mikilvægi þess að eiga orku fyrir þau tækifæri. Ísland er hástökkvari í netöryggi eftir aðgerðaráætlun í upphafi kjörtímabils og við kláruðum ljósleiðaravæðingu landsins. Ég hef ýtt undir störf óháð staðsetningu. Gjörbreytt vinnunni í stjórnsýslunni og innleitt nýsköpun í Stjórnarráðinu. Efnahagslegur ávinningur allra þessara aðgerða er ótvíræður.“

Kveðst Áslaug vera stolt af þessu og mörgu öðru.

„Ég er stolt af þessu og mörgu öðru sama hvað fólk reynir að tala niður árangur þessarar ríkisstjórnarinnar.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert