Geir Áslaugarson
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir ríkisstjórnina hafa verið dauðadæmda frá því að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tók við lyklunum að Stjórnarráðinu.
„Það er búið að liggja í loftinu lengi að þessi ríkisstjórn væri búin að missa hlutverk sitt og tilgang og það var í raun bara hún sem átti eftir að átta sig á því sjálf.“
Hún telur það til bóta að þjóðinni gefist kostur til að kjósa sér nýja ríkisstjórn sem geti komið hlutum í verk, en kallar það ábyrgðarleysi hjá Bjarna og ríkisstjórninni sem heild að hafa dregið ákvörðun um stjórnarslit á langinn.
„Þetta er ákveðið ábyrgðarleysi hjá Bjarna og hjá flokkunum í þessari ríkisstjórn að draga þetta svona lengi, að sprengja upp þetta samstarf sem augljóslega var sprungið.“
Hún segir Pírata tilbúna í kosningar og að undirbúningsvinna sé komin á fullt.
Verður prófkjör hjá Pírötum?
„Píratar gefa aldrei afslátt á lýðræðinu og það verður prófkjör hjá okkur eins og alltaf.“