Dráttarbátur knúinn raforku

Nýi báturinn á að koma í flotann stað dráttarbátsins Haka.
Nýi báturinn á að koma í flotann stað dráttarbátsins Haka. Ljósmynd/Faxaflóahafnir

Faxaflóahafnir áforma kaup á nýjum dráttarbáti sem knúinn verði „grænum orkugjöfum“. Er það liður að því markmiði Faxaflóahafna að auka hlutfall umhverfisvænnar orku í starfsemi sinni í stað jarðefnaeldsneytis.

Nýi báturinn á að koma í stað dráttarbátsins Haka, sem orðinn er 18 ára gamall.

Á síðasta fundi stjórnar Faxaflóahafna kynnti Gísli Jóhann Hallsson yfirhafnsögumaður niðurstöður verðfyrirspurnar rafdrifins dráttarbáts og svaraði spurningum fundarmanna.

Gísli segir í samtali við Morgunblaðið að fyrirtækið hafi í fyrra sett á langtímaáætlun kaup á slíkum báti. Til kaupanna eigi að verja 2.000 milljónum á þremur árum svo að hér sé um að ræða mikla fjárfestingu. Ekki liggi fyrir hvenær smíðin verði boðin út. Það geti í fyrsta lagi orðið á næsta ári.

Nokkrar skipasmíðastöðvar hafa hannað og smíðað rafdrifna báta og slíkir bátar eru komnir í notkun. Í þeim eru rafgeymar sem geta drifið bátinn í ákveðinn tíma. Þegar rafmagnið þrýtur á geymunum taka við ljósavélar. Því megi segja að þetta séu „hybrid-bátar“.

Nýjasti dráttarbátur Faxaflóahafna er Magni sem kom til landsins í febrúar 2020. Hann var smíðaður í Víetnam. Magni er tæplega 33 metra langur og togkrafturinn er 85 tonn.

Haki hefur reynst afar vel

Haki kom til landsins 2006. Hann er tæplega 23 metra langur og togkrafturinn 40 tonn. Stefnt er að því að nýi dráttarbáturinn verði að svipaðri stærð og Haki en með meiri togkraft. Gísli segir að eftirsjá verði að Haka, sem hafi reynst afskaplega vel.

Hins vegar sé þörf á öflugri og öruggari báti. Tækninni hafi fleygt ört fram á undanförnum árum. Til dæmis sé nýjum bátum, t.d. Magna, stýrt með nýrri skrúfutækni sem geri alla stjórn hraðari og öruggari.

Faxaflóahafnir hafa yfir að ráða tveimur minni bátum. Þeir eru Leynir, togkraftur 14 tonn, og Þjótur, togkraftur 6 tonn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert