Fór á límingunum eftir hvarf Katrínar

Inga segir að búið sé að koma á fót uppstillingarnefnd …
Inga segir að búið sé að koma á fót uppstillingarnefnd innan flokksins en að eftir eigi að ákveða hvernig lista flokksins verði stillt upp. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég beið eftir þessu. Þetta kemur ekki á óvart. Þetta búið að vera í kortunum um allnokkurt skeið og byrjaði strax að fara á límingunum þegar Katrín yfirgaf forsætisráðherrastólinn,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.

Hún segir löngu kominn tíma til að stjórnarsamstarfinu yrði slitið enda stjórnin búin að vera andvana í lengri tíma.

Fædd tilbúin

„Þrátt fyrir að hann [Bjarni] segi að þetta hafi verið erfið ákvörðun, þá held ég að þetta hafi verið eina ákvörðunin sem hann átti á hendi.“

Er Flokkur fólksins tilbúinn í kosningar?

„Við í Flokki fólksins fæddumst tilbúin.“

„Við getum ekki beðið eftir því að fá tækifæri til að sýna hvað í okkur býr,“ bætir hún við.

Hún segir að búið sé að koma á fót uppstillingarnefnd innan flokksins en að eftir eigi að ákveða hvernig lista flokksins verði stillt upp.

Lýsi vasaljósi á Flokk fólksins

„Þetta er búið að vera verulega vandræðalegt allt of lengi,“ segir hún og að Flokkur fólksins láti verkin tala.

„Þú finnur ekki, þó þú myndir leita með logandi ljósi, nokkurn einasta stjórnmálaflokk á Alþingi Íslendinga hvorki fyrr né síðar sem hefur barist með eins mörgum þingmannamálum til að sýna hvar raunverulegur vilji okkar er fyrir land og þjóð,“ segir hún og heldur áfram:

„Þá er allt í lagi að taka upp vasaljósið og lýsa aðeins á okkur og sjá hvað við erum rosalega dugleg og fylgin okkur í því að gera vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert