Fundaði með Bjarna í gær

Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra og formaður VG.
Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra og formaður VG. mbl.is/Karítas

Ákvörðun Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra um að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu kom Svandísi Svavarsdóttur, innviðaráðherra og formanni Vinstri grænna, á óvart. 

Hún telur að stjórnarflokkarnir hefðu getað haldið samstarfinu gangandi hefðu þeir forgangsraðað rétt en segir þó of seint að svara því núna hvort að vinstri grænir hefðu verið reiðubúnir að gera málamiðlanir í orku- og útlendingamálum.

Búinn að ræða við forsetann þegar hann hringdi í formennina

Bjarni hringdi í Svandísi klukkan korter yfir tvö í dag, eða rúmri klukkustund fyrir blaðamannafundinn sem hann hélt, og upplýsti hana um ákvörðun sína. 

„Hann var kominn að niðurstöðu. Þá var hann búinn að tala við forseta Íslands og var að taka símtöl við okkur Sigurð Inga.“

Hún fundaði með Bjarna ásamt Sigurði Inga Jóhannssyni, fjármálaráðherra og formanni Framsóknarflokksins, í gær. Hún segir samtalið þá, og síðustu daga, ekki hafa gefið tilefni til að halda að þetta væri næsta skrefið. 

Óróleiki og uppgjafartónn

Nú boðaði Bjarni skyndilega til þingflokksfundar á föstudag. Grunaði þig þá að þetta væri umræðuefnið?

„Maður hefur náttúrulega orðið var við óróleika og uppgjafartón í þingflokki Sjálfstæðisflokksins um mjög langt skeið. Það hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins beinlínis verið í stjórnarandstöðu við þessa ríkisstjórn um töluvert langan tíma. Það í sjálfu sér kom ekki á óvart að það væru slíkar raddir sem formaðurinn væri að glíma við á þeim fundi,“ segir Svandís.

„En hins vegar þá hittumst við í gær formenn flokkanna, sem er eftir þennan fund, og þá bar ekki á öðru en að forsætisráðherra væri að ræða það í fullri alvöru að við ættum verkefni fyrir höndum.“

Hún segir efnahagsmál og ýmis þingmál hafa verið til umræðu á fundinum í gær.

„Við vorum að kortleggja málin og reyna að leita lausna.“

Hefðu getað haldið stjórninni gangandi

Telur þú að þessi ríkisstjórn hefði getað haldið áfram næstu mánuði?

„Ég held að ef við hefðum forgangsraðað þannig, að við værum fyrst og fremst að hugsa um samfélagið í heild, þá hefðum við getað gert það já. Ég held að það liggi algjörlega fyrir. En Sjálfstæðiflokkurinn gafst upp. Hann gafst upp á verkefninu. Það bara liggur fyrir. Það er eitthvað sem Sjálfstæðismenn þurfa að horfast í augu við er að þetta er í annað skiptið sem að ríkisstjórn undir forystu Bjarna Benediktssonar gefst upp áður en verkefninu er lokið.“

Hefðu Vinstri grænir verið reiðubúnir að gera málamiðlanir í orku- eða útlendingamálum?

„Ég held að sú umræða sé bara að baki. Við erum bara að búa okkur undir kosningar og þurfum að finna út úr því hvernig við brýnum okkar vinstri rödd. Við þurfum að fleyta stemningunni og stuðinu sem var á landsfundinum um síðustu helgi inn í samtalið við þjóðina og kjósendur. Því að við þurfum svo sannarlega á rödd vinstri grænna að halda í þinginu.“

„Hann verður að svara fyrir það“

Vinstri grænir samþykktu ályktun á landsfundi sínum fyrr í mánuðinum að stefnt skyldi að kosningum í vor. Þá hafði Svandís þegar lýst því yfir að hún teldi að það ætti að kjósa með vorinu.

Spurð hvort hún telji að þessi yfirlýsing Vinstri grænna hefði haft áhrif á ákvörðun Bjarna um að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu, kveðst hún ekki geta svarað fyrir hans hönd. 

„Hann verður að svara fyrir það hvernig hans ákvarðanir fæðast. En það er löngu áður en sá landsfundur er haldinn sem að það kom fram að stórir hópar í þingflokki Sjálfstæðisflokksins væru komnir að fótum fram og treystu sér ekki til að styðja ríkisstjórnina. Það er náttúrulega áhyggjuefni sem snýst ekkert um það hvenær kjördagur er eða hvaða ályktanir eru samþykktar á landsfundi VG.“

Stjórnarslitin gerast nú stuttu eftir að þú tekur við sem formaður Vinstri grænna. Telur þú að það hafi haft einhver áhrif á þessa ákvörðun?

„Enn og aftur. Ákvörðunin var hjá Bjarna Benediktssyni. Ákvörðunin er hjá þingflokki Sjálfstæðisflokksins og þau verða að svara hvaða þættir það eru sem leiða þau að þessari niðurstöðu. En mér hefur fundist Sjálfstæðisflokkurinn vera að missa móðinn í mjög langan tíma og ég held að það þurfi ekki stjórnmálafræðing til að benda á það eða formannaskipti hjá VG.“

Samstarfið krefjandi

Þú hefur talað um það að Sjálfstæðismenn hafi verið ósáttir, að það hafi verið uppgjafartónn hjá þeim. En vinstri grænir, hafa þeir verið sáttir í þessu ríkisstjórnarsamstarfi?

„Við höfum talað skýrt og lögðum áherslu á það á landsfundi núna um síðustu helgi að við myndum vilja byggja okkar ákvarðanir og nálganir í þessum stóru málum á félagslegum forsendum. Við ályktuðum sérstaklega um það. Það skiptir miklu máli. Ég held að það sé alltaf gott að flokkar tali skýrt í samstarfi.

Það leynist engum að þetta samstarf hafi verið krefjandi en við höfum hins vegar tekist á við stærri verkefni en nokkur önnur ríkisstjórn hefur þurft að glíma við. Það var á löngum tímabilum afar gefandi að vera í samstarfi undir forystu Katrínar Jakobsdóttur sem býr yfir þeim eiginleikum að geta hlustað eftir ólíkum sjónarmiðum og leitt þau í jörð og búið til sameiginlegan tón úr flóknu pólitísku samspili, en það er sannarlega ekki öllum gefið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert