Gengur óttalaus til kjósenda

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Eyþór

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segist vona að fólk sjái að Sjálfstæðisflokknum sé alvara með að setja þau verkefni í forgang sem ríkisstjórnin náði ekki saman um og bæta þannig við fylgi flokksins.

Á blaðamannafundi í Stjórnarráðinu í dag þar sem hann greindi frá að hann hygðist slíta ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna.

Upplýsti Bjarni að gengið yrði til kosninga í lok nóvember.

Samkvæmt nýjustu mælingum Þjóðarpúls Gallup mælist Sjálfstæðisflokkurinn nú með 14% fylgi.

Tekur ekki sína stöðu fram yfir hag þjóðarinnar

Hvernig hyggstu endurheimta traust kjósenda fyrir komandi kosningar?

„Með því að rjúfa þessa stöðu sem er komin upp. Með því að taka ekki framhaldslíf ríkisstjórnarinnar og mína stöðu hér í þessu ráðuneyti fram yfir það sem að þjóðin þarf á að halda,“ sagði Bjarni á blaðamannafundinum fyrr í dag.

Þá segist hann trúa að það verði metið af kjósendum að verkefnin sem ríkisstjórnin náði ekki saman um verði sett í forgang af flokknum og benti hann á að sú stefna sem flokkurinn hafi talað fyrir hafi leitt til sigurs í síðustu fjórum kosningum.

„Þannig að ég geng algjörlega óttalaus með þessa stöðu til kjósenda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert