„Loksins er þessi ríkisstjórn að falla“

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, segir fráfarandi ríkisstjórn ekki starfa …
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, segir fráfarandi ríkisstjórn ekki starfa út frá vilja almennings í mörgum málum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Loksins er þessi ríkisstjórn að falla og er sprungin. Þetta er ríkisstjórn sem starfar ekki út frá vilja almennings í svo mörgum málum. Við bara fögnum því að almenningur fái að kjósa og að við fáum stjórn sem vill einhverjar breytingar og laga það sem þarf að laga.“

Þetta segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, í samtali við mbl.is.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra greindi frá því á blaðamannafundi í Stjórnarráðinu í dag að ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna væri lokið.

Býst við uppstillingu

„Við ætlum að koma saman í Vorstjörnunni – Alþýðuhúsinu okkar – og horfa á fréttir saman, ræða stöðuna. Það verður góð stund býst ég við,“ segir Sanna.

Eru þið byrjuð að huga að listum fyrir Alþingiskosningar og hvernig verður raðað á lista?

„Já, við erum með félagsfund næsta sunnudag og erum að ganga út frá því að það verði uppstilling en leggjum það fyrir félagsfund og svo munum við kynna nöfnin og áherslur okkar,“ segir Sanna.

Munu nöfnin liggja fyrir eftir viku?

„Við tökum eitt skref í einu og það verður auglýst vel og við sjáum fyrir okkur að vera með tíða félagsfundi. Þetta er allt í vinnslu og verður auglýst vel þegar að því kemur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert