Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir mál Yazans Tamimi hafa verið ríkisstjórninni erfitt. Það hafi hins vegar ekki verið málið sem fyllti mælinn og leiddi til stjórnarslita.
Þetta sagði hann á blaðamannafundi í Stjórnarráðinu í dag er hann tilkynnti um stjórnarslitin.
Bjarni sagði stjórnarflokkana ekki deila sýn í ákveðnum grundvallarmálum sem birtist meðal annars í utanríkisstefnu og hælisleitendamálum flokkanna.
„Á hinn bóginn er þessi ríkisstjórn ekki með svörin sem að ég er sáttur við í þessu samstarfi varðandi uppbyggingu atvinnugreina til lengri tíma. Við eigum svo mikil tækifæri í tengslum við græna orku, í íslenskum sjávarútvegi, lagareldi, í ferðaþjónustu og svo víða annars staðar.“
Hann sagði hins vegar að ríkisstjórnin hafi náð eftirtektarverðum árangri með því að styðja við ábyrga langtímakjarasamninga.
Yazan Aburajab Tamimi er palestínskur drengur sem vísa átti úr landi í síðasta mánuði. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, bað um að brottvísun Yazans yrði stöðvuð. Yazan er greindur með vöðvahrörnunarsjúkdóminn Duchenne.