„Nýtt upphaf“ eða „meira af því sama“

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, kveðst klár í kosningar.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, kveðst klár í kosningar. Ljósmynd/Aðsend

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að landsmönnum gefist í komandi kosningum tækifæri til að fá „nýtt upphaf“ með Samfylkingunni eða „meira af því sama.“ Uppstilling verður á framboðslistum Samfylkingarinnar um allt land og ekkert prófkjör.

Þetta segir Kristrún í samtali við mbl.is.

„Nú glittir í nýtt upphaf fyrir fólkið landinu. Nýtt upphaf vonandi með Samfylkingunni eða þá meira af því sama og við höfum haft síðustu ár, sama fólkið og sömu pólitíkina. Þetta er tækifæri fyrir þjóðina og það er jákvætt að fólkið fái valdið aftur í sínar hendur og getur nú valið leiðina áfram fyrir Ísland,“ segir hún.

„Sterk velferð, stolt þjóð“

Rík­is­stjórn­ar­sam­starfi Sjálf­stæðis­flokks, Fram­sókn­ar og Vinstri grænna hef­ur verið slitið og kosningar verða haldnar 30. nóvember, að því gefnu að Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, samþykki þingrofs­beiðni Bjarna.

Kristrún vill vekja von um breytingar og segir nú sé tækifæri til þess að ná þeim fram. Hún telur að það verði fyrst og fremst kosið um efnahagsmál og velferðarmál.

„Sterk velferð, stolt þjóð. Það er sá valkostur sem Samfylkingin býður upp á,“ segir hún.

Uppstilling á lista

Með skamman tíma til stefnu mun Samfylkingin láta stilla upp listum og því verður ekki prófkjör.

„Við munum stilla upp sterkum listum um land allt,“ segir hún.

Þannig það eru væntanlega kjördæmisráð í hverju kjördæmi fyrir sig sem skipa uppstillingarnefndir sem stilla upp listum?

„Þetta er bara sú fínpússun sem er núna í gangi en það verða sterkir listar um land allt sem verður stillt upp í,“ segir Kristrún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert