Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir Miðflokkinn vera tilbúinn í kosningar. Gera má ráð fyrir því stillt verði upp á lista flokksins um land allt.
„Ég held að það sé óhætt að segja að við erum til í kosningabaráttuna og að þetta hafi verið óhjákvæmileg niðurstaða úr því sem komið var,“ segir Sigmundur.
Ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna hefur verið slitið og kosningar verða haldnar 30. nóvember, að því gefnu að Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, samþykki þingrofsbeiðni Bjarna.
Sigmundur segir að Miðflokkurinn muni leggja áherslu á útlendingamál, orkumál, stöðu efnahagsmála og að draga úr umsvifum ríkisins.
„En svo þarf bara heildarlagfæringu á öllu kerfinu hér, hvort sem það er menntakerfið eða heilbrigðiskerfið eða annað. Það þarf að láta þetta virka betur þannig að skattgreiðendur fái meira fyrir peningana sína,“ segir hann.
Hvernig mun Miðflokkurinn stilla upp listum í komandi kosningum?
„Það var ekki búið að taka ákvörðun um það, við vildum sjá til lands að einhverju leyti hvenær kosningar yrðu. En miðað við þennan skamma fyrirvara þá held ég að það sé líklegt að við og flestir allir flokkar förum í eitthvað form af uppstillingu,” segir Sigmundur.
Er einhver sérstök ríkisstjórn sem þú vilt sjá að loknum kosningum?
„Ríkisstjórn sem er til í þær breytingar sem eru nauðsynlegar og það á eftir að koma í ljós í kosningabaráttunni og eftir kosningar hvaða flokkar eru til í það.“