Ríkisstjórnin í „líknandi meðferð“

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins.
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það blasir við að ríkisstjórnin er í einhverri eigin líknandi meðferð þessa dagana,“ segir Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, sem er að sögn Bergþórs reiðubúinn í að takast á við kosningar á næstu vikum.

Segir hann hræringar í ríkisstjórninni vera meira af því sama sem hefur blasað við þjóðinni í langan tíma.

„[...] en núna er þetta farið að hafa augljós alvarleg áhrif á samfélagið og hag borgaranna þannig ég held að það sé fyrsti tíminn bestur að þau pakki saman, þessi ríkisstjórn, og leyfi almenningi að koma að borðinu og kjósa upp á nýtt.“

Segir hann alvarleika málsins sjást í málum sem ríkisstjórnin sagði sjálf að væru kjarnamál hennar í upphafi, þá sérstaklega útlendingamálin og orkumálin.

„Þar er allt stopp. Samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins eru beinlínis búnir að segja að ekki verði lengra haldið. Þannig það er ljóst að ef þetta samstarf skakklappast fram á vor, eða hvað þá fram á næsta haust, þá yrði þetta tímabil sem að færi til ónýtis fyrir samfélagið allt.“

Þurfi að taka stórar ákvarðanir

Í gær fór fram flokksráðsfundur Miðflokksins og fór þar formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, um víðan völl og talaði fyrir miklum breytingum ef Miðflokkurinn næði í ríkisstjórn.

„Það þarf að taka stórar ákvarðanir,“ segir Bergþór um þær brýnu breytingar sem flokkurinn telur þörf á.

„Við höfum verið á rangri braut í mörgum málaflokkum undanfarin tvö kjörtímabil.“

Segir hann að nú þurfi að taka ákvarðanir sem feli í sér bættan hag fyrir samfélagið.

„Það á bæði við í ríkisfjármálunum, orkumálunum, útlendingamálunum og samgöngumálunum og auðvitað í menntamálunum.“

Telur ríkisstjórnarslit yfirvofandi

Bergþór nefnir að vel hafi verið mætt á fund flokksins í gær og að stemningin hafi verið góð. Þá sé flokkurinn í góðum gír hvað það varðar að takast á við kosningar á næstu vikum ef stjórnarsamstarfið rennur sitt skeið.

Og þú telur að það gæti gerst núna bara á næstu dögum?

„Já, miðað afarkosti formanns Framsóknarflokksins á Facebook í gær þá er þetta nú ekki langur tími sem Bjarni [Benediktsson, forsætisráðherra] hefur til að taka afstöðu til þess hvort hann vilji leggja á sig áfram að vera í þessu samstarfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert