Ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna hefur verið slitið. Frá þessu greinir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á fundi í Stjórnarráðinu.
Bjarni greinir frá því að hann hafi upplýst formenn Framsóknar og Vinstri grænna að hann muni leggja fyrir forseta Íslands tillögu um þingrof og alþingiskosningar í nóvember.
Hefur hann þegar haft samband við Höllu Tómasdóttur forseta Íslands og mun hann fara á hennar fund á morgun, mánudag.
Bjarni boðaði til blaðamannafundar í Stjórnarráðinu nú rétt fyrir skömmu þar sem hann gerði grein fyrir þessum tíðindum.
Mikil ólga hefur verið á stjórnarheimilinu í þessari viku. Tveir stjórnarliðar, Óli Björn Kárason og Jón Gunnarsson, hafa sagt erindi stjórnarinnar komið að þrotum vegna þess að Vinstri græn vilji ekki gera meira í útlendinga- og orkumálum.
Þegar ríkisstjórnin var endurnýjuð undir forystu Bjarna Benediktssonar var sagt að erindi ríkisstjórnarinnar væri að takast á við efnahagsmálin, útlendingamálin, orkumálin og breytingar á örorkulífeyriskerfinu.
Þar að auki eru sjálfstæðismenn og margir framsóknarmenn ekki sáttir við það að Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, skyldi hafa sagt opinberlega að hún vildi kosningar í vor án þess að ræða við formenn hinna stjórnarflokkanna.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, birti færslu á Facebook í gær þar sem hann sagði það ákaflega brýnt að það skapist vinnufriður í ríkisstjórn. Ef hinir stjórnarflokkarnir treysti sér ekki til að standa við og vinna að stjórnarsáttmálanum yrði það að koma fram á allra næstu sólarhringum.
Þá greindi Viljinn frá því í gær að á opnum fundi með Bjarna í Garðabæ hafi hann kallað eftir því að Vinstri græn endurskoði afstöðu sína í útlendingamálum og virði samkomulag stjórnarflokkanna í málaflokknum.
Ef ekki væri ekkert annað í stöðunni en að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu og boða til kosninga.
Fréttin verður uppfærð.