Segir stjórnarslit ekki hafa legið í loftinu

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra. mbl.is/Hákon

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra segir stjórnarslit ekki hafa legið í loftinu þegar hann fundaði með formönnum stjórnarflokkanna í gær. Hann segir mikilvægt að hægt verði að afgreiða fjárlögin en hefur áhyggjur af að stjórnarslitin trufli þá vinnu.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra greindi Sigurði Inga frá ákvörðun sinni um að slíta stjórnarsamstarfinu skömmu áður en hann boðaði til blaðamannafundar. Hann hefur ekki rætt við forsætisráðherra eftir fundinn í dag en hyggst gera það á morgun.

Blaðamaður mbl.is náði tali af Sigurði Inga á leið á þingflokksfund Framsóknar í kvöld.

Tímasetning Bjarna kom á óvart

„Við áttum góðan fund í gær með Svandísi og mitt mat eftir þann fund var að það væri færi á því að halda áfram og taka ákveðin mál til skoðunar. Forsætisráðherra ætlaði að koma til baka til okkar með það. Það má segja að það hafi komið að því leytinu á óvart að þetta hafi komið strax í dag,“ segir Sigurður Ingi.

Lá ekki í loftinu að hann væri að boða stjórnarslit þegar þið voruð að ræða saman eftir skyndilegan þingflokksfund Sjálfstæðismanna á föstudaginn?

„Nei.“

Hann segir stöðuna á milli flokkanna hafa verið til umræðu á fundinum í gær. 

„Og hvernig ríkisstjórn gæti fengið viðspyrnu með því að klára ákveðin mikilvæg verkefni sem að ég hef áhyggjur af að geti hökt afgreiðslu á, þó auðvitað geti þingið tekið utan um mál með sitjandi ríkisstjórn þá er það kannski erfiðara, og svo þessi mál sem hafa verið í ágreiningi, aðallega á milli Sjálfstæðisflokks og VG.“

Málamiðlanir ekki í boði

Ágreiningur á milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins hefur verið í sviðsljósinu. Hvert hefur ykkar hlutverk verið í þessu? Á hvaða línu eruð þið?

„Við höfum verið að leggja línur að því að ljúka verkefnum annars vegar á skynsamlegan hátt, þannig að þau mál sem hafa verið til umfjöllunar, tökum sem dæmi útlendingamálin, þar sem við náðum sameiginlegri sýn í febrúar og við höfum unnið eftir tuttugu liða áætlun.

Einn hlutinn var að samþykkja löggjöf og breytt verklag sem hefur þegar skilað miklum árangri, næsti fasi var að taka upp löggjöf aftur í haust og síðan aftur næsta vor í þremur áföngum og að mínu mati var færi á því en það þarf vilja til þess og sveigjanleika og málamiðlanir og ég hef heyrt annars vegar ályktanir VG og hins vegar yfirlýsingar einstakra þingmanna Sjálfstæðisflokksins að það séu ekki neinar málamiðlanir í boði.“

Afstaða Sjálfstæðisflokksins liggur fyrir

Telurðu að það hefði verið hægt að klára þetta kjörtímabil?

„Við hefðum getað tekið ákvörðun um að kjósa á einhverjum tilteknum tíma en við fórum ekki endilega út í það í gær, en það er í sögubókunum í dag.“

Hefði verið hægt að gera þetta eftir nokkrar vikur eða mánuði og þá klára einhver ákveðin mál, til að mynda fjárlögin, með skýrum hætti?

„Eins og ég segi var það mitt mat að það hefði verið hægt svo fremur væri vilji fyrir hendi og setti inn færslu á Facebook um það að það væri mikilvægt að stjórnarflokkarnir, þá var ég auðvitað að tala um hina tvo, að þeir gerðu upp við sig hvort þeir treystu sér til þess. Nú liggur afstaða Sjálfstæðisflokksins fyrir.“

Hvorki rætt við Bjarna né Svandísi eftir fund

Hvernig sérðu fyrir þér næstu vikur og þá sérstaklega með tilliti til fjárlaganna?

„Það eru mörg mikilvæg verkefni og fjárlögin augljóslega einhver þau mikilvægustu. Við sjáum efnahagsmálin þróast hraðar í jákvæða átt heldur en við sáum fyrir bara tveimur þremur mánuðum. Ég hef áhyggjur af því að þessi ákvörðun trufli þau en það er mikilvægt að við höldum þeim takti og þá í samstarfi við þingið að reyna að klára þau. Það er ein af frumskyldum okkar sem eru í stjórnmálum og ég legg áherslu á að við gerum það, en þetta er flóknara.“

Hann segist hvorki hafa rætt við Bjarna né Svandísi eftir blaðamannafundinn í dag.

Muntu gera það á morgun?

Örugglega.

Spurður hvort hann telji að ríkisstjórninni takist að áorka einhverju nú þegar rúmur mánuður er í kosningar segir hann það vera sitt mat að ríkisstjórnin geti gert ýmislegt en að til þess þurfi vilja þriggja flokka í þriggja flokka ríkisstjórn. 

„Og nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn tekið þá ákvörðun að hafa ekki vilja til þess.“

Blaðamaður ræddi við Sigurð Inga skömmu fyrir þingflokksfund Framsóknar.
Blaðamaður ræddi við Sigurð Inga skömmu fyrir þingflokksfund Framsóknar. mbl.is/Hákon

Óvæntur dagur

Aðspurður kveðst hann ekki ósáttur út í formenn samstarfsflokka sinna. 

„Þú ert bara í stjórnmálum þegar þú ert í stjórnmálum, en mér finnst það ábyrgðarhluti að hafa slitið ríkisstjórnarsamstarfi með svona stuttum fyrirvara. Það er auðvitað hægt og við erum auðvitað klár í kosningar, Framsóknarflokkurinn, við erum með það í okkar kerfi að það sé hægt að undirbúa kosningar hratt og vel og við munum gera það og svo sjáum við þegar þær eru búnar hver næsta staða er í þessu verkefni. “

Hefur þetta verið erfiður dagur?

„Óvæntur“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert