Þorgerður: Viðreisn tilbúin í slaginn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, ræddi við mbl.is um tíðindin.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, ræddi við mbl.is um tíðindin. mbl.is/Ólafur Árdal

„Ég held að þessi ákvörðun Bjarna sé kannski skynsamlegasta ákvörðun sem hann og ríkisstjórnin hefur tekið á kjörtímabilinu,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is.

Rík­is­stjórn­ar­sam­starfi Sjálf­stæðis­flokks, Fram­sókn­ar og Vinstri grænna hef­ur verið slitið og kosn­ing­ar verða haldn­ar 30. nóv­em­ber, að því gefnu að Halla Tóm­as­dótt­ir, for­seti Íslands, samþykki þingrofs­beiðni Bjarna.

„Við erum heldur betur tilbúin í slaginn og það eru nú bara einhverjar tvær vikur síðan að ég var á haustþingi og lýsti því yfir að kosningabaráttan væri hafin. Það er greinilegt að þau hafa tekið mig á orðinu,“ segir Þorgerður.

Segir almenna skynsemi vanta við ríkisstjórnarborðið

Hún segir flokkurinn muni berjast fyrir „almannahagsmuni framar sérhagsmunum“ og þá segir hún að flokkurinn vilji létta róðurinn fyrir fólk og fyrirtæki.

„Fyrst og fremst það sem við erum búin að vera tala um. Það eru vextir, verðbólga, innviðauppbygging í heilbrigðiskerfinu – minnka biðlista – og efla öryggi og löggæslu,“ segir hún og bætir við að ráðdeild í ríkisrekstrinum sé nauðsynleg.

Hún segir að það sé nauðsynlegt að fá almenna skynsemi við ríkisstjórnarborðið sem hún segir hafa skort verulega.

„Líka að þora að taka ákvarðanir og ýta okkur fram á við en ekki halda okkur í kyrrstöðu eins og þessi ríkisstjórn hefur verið að bjóða okkur upp á á umliðnum árum.“

Viðreisn fundar í kvöld

Hafið þið hugað að því hvernig listar verða skipaðir?

„Ég er búin að boða til fundar í stjórn flokksins í kvöld þar sem við munum fara yfir þessi mál með helsta fólkinu mínu, bæði stjórn og öðrum sem koma að þessu öllu saman. Við erum bara að draga upp myndina í kvöld. Við ætluðum í prófkjör en það verður bara að sjá hvort að það næst, annars verður bara næsta skref tekið. En við erum mjög fljót að bregðast við,“ segir Þorgerður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert