Ungt Framsóknarfólk segir ákvörðunina „heigulshátt“

Gunnar Ásgrímsson, formaður Sambands ungra Framsóknarmanna.
Gunnar Ásgrímsson, formaður Sambands ungra Framsóknarmanna. Ljósmynd/Aðsend

„Ungu Framsóknarfólki blöskrar ákvörðun formanns Sjálfstæðisflokksins um að slíta ríkisstjórnarsamstarfi á þessum tímapunkti og leitast við að ganga til kosninga í nóvember. Okkur þykir þetta heigulsháttur, þetta er gert með hagsmuni hans flokks í huga umfram hagsmuni þjóðarinnar.“

Þetta kemur fram í ályktun stjórnar Sambands ungra Framsóknarmanna um ákvörðun Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra.

„Það er stór ákvörðun að gefa kost á sér til þess að vera málsvari kjósenda í fjögur ár á þingi og henni fylgir mikil ábyrgð. Hvað þá þegar fólki hlotnast sá heiður að taka þátt í ríkisstjórn þar sem þau hafa frekara tækifæri til þess að móta framtíð þjóðarinnar,“ segir í ályktuninni.

Sorglegt að ráðherra taki ekki ábyrgðinni alvarlega

„Það er sorglegt að forsætisráðherra og samflokksfólk hans taki þeirri ábyrgð ekki alvarlegar en raun ber vitni.“

Þá segir jafnframt að slit á ríkisstjórnarsamstarfi eigi að vera „neyðarventill“ og eigi að nota þegar aðstæður skapast þar sem ómögulegt sé að halda áfram. Stjórnarslit séu ekki björgunarbátur til að hoppa í þegar skoðanakannanir eru flokkum óhagstæðar eða menn þurfa að miðla málum í ríkisstjórnarsamstarfi.

„Efnahagsmálin eru loksins að komast á réttan kjöl og vextir byrjaðir að lækka. Þá er það gjörsamlega óábyrgt að stefna því í hættu með því að skapa hér pólitíska óvissu.

Við hræðumst ekki kosningar og teljum að verk þingmanna og ráðherra Framsóknar tali fyrir sig sjálf,“ segir í ályktuninni að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert