Vertíð skemmtiferðaskipa ársins 2024 er að ljúka. Fleiri farþegar komu til Reykjavíkur í sumar en reiknað hafði verið með og hafa þeir aldrei verið fleiri á einu sumri.
Þegar eitt skip var ókomið var heildarfjöldi farþega 322.042, samkvæmt tölum frá Faxaflóahöfnum. Fyrra metið er frá því í fyrra, 306.311 farþegar. Síðasta skipið, Le Commandant Charcot, var væntanlegt í Sundahöfn í gærkvöldi.
Áætlað var að farþegar með því væru 240 og er sú tala reiknuð inn í fyrrgreinda heildartölu. Lokatölur verða ljósar eftir helgina.
Skipakomur til Faxaflóahafna voru alls 259. Fjöldi skipakoma í farþegaskiptum: 167 (þar af 68 leiðangursskip), almennar viðkomur 92 (þar af þrjú leiðangursskip). Skipakomur sumarið 2023 voru 261.
Fjöldi farþega í farþegaskiptum var 156.454 (49%). Þar af 19.988 í leiðangursskipum. Fjöldi farþega í almennum viðkomum var 165.588 (51%).
Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins kom til hafnar í Sundahöfn 21. apríl. Vertíðin hefur því staðið yfir í rúma fimm mánuði.
Nánar má lesa um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins.