47 sviptu sig lífi á síðasta ári

Flest sem sviptu sig lífi á síðasta ári voru á …
Flest sem sviptu sig lífi á síðasta ári voru á aldrinum 45 til 49 ára. mbl.is

Sjálfsvíg hér á landi á síðasta ári voru 47 talsins, eða 12,4 á hverja 100 þúsund íbúa, samkvæmt samantekt embættis landlæknis. 31 karlmaður svipti sig lífi á síðasta ári og 16 konur. Flest voru á aldrinum 45 til 59 ára.

Sé litið á tölfræði síðustu 20 ára hefur fjöldi sjálfsvíga á ári hverju verið svipaður, með örlitlum sveiflum í báðar áttir. Fram kemur í ársskýrslu Lífsbrúar, sem ber ábyrgð á sjálfsvígsforvörnum hér á landi, að vegna fámennis þjóðarinnar geti litlar breytingar valdið nokkrum sveiflum á dánartíðni.

Því sé mikilvægt að túlka ekki tölur fyrir eitt ár sem vísbendingu um aukningu eða samdrátt á tíðni sjálfsvíga, heldur horfa á lengra tímabil.

Byggir á upplýsingum úr dánarmeinaskrá

Sé horft til síðustu fimm ára, frá árinu 2019 til 2023 voru að meðaltali 41 sjálfsvíg á ári eða 11,3 á hverja 100 þúsund íbúa.

Ef við lítum á fimm ára tímabil þar á undan, frá árinu 2014 til 2018 voru sjálfsvíg að meðaltali 39 á ári, eða 11,6 á hverja 100 þúsund íbúa.

Frá árinu 2009 til 2013 voru sjálfsvíg einnig að meðaltali 39 á ári en 12,2 á hverja 100 þúsund íbúa.

Opinber tölfræði um sjálfsvíg byggir á upplýsingum um dánarorsakir einstaklinga með lögheimili á Íslandi við andlát sem skráðar eru í dánarmeinaskrá landlæknis. Fjöldi sjálfsvíga tekur til andláta þar sem undirliggjandi dánarorsök á dánarvottorði eru skráð sem vísvitandi sjálfsskaði.

Embætti land­lækn­is bend­ir á að mik­il­vægt sé að þeir sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir segi ein­hverj­um frá líðan sinni, hvort sem er aðstand­anda eða hafi sam­band við Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717, eða á net­spjalli 1717.is, við hjúkr­un­ar­fræðing í net­spjalli á heilsu­vera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-sam­tak­anna s. 552-2218. Píeta-sam­tök­in bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyr­ir aðstand­end­ur þeirra sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir.

Fyr­ir þau sem misst hafa ást­vin í sjálfs­vígi bend­ir land­læknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorg­armiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-sam­tök­un­um í síma 552-2218.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert