Andlát: Frank Walter Sands

Frank Walter Sands, athafnamaður og stofnandi veitingastaðanna Vegamóta og Reykjavík Bagel Company, er látinn, aðeins 58 ára gamall. Frank lést á sjúkrahúsinu í Avignon 8. október sl. af völdum hastarlegra ofnæmisviðbragða og hjartaáfalls þar sem hann var staddur í fríi í Suður-Frakklandi.

Frank lætur eftir sig þrjár dætur, Zoë Völu, f. 1995, Phoebe Sóleyju, f. 1998, og Hebu Leigh, f. 2005.

Frank fluttist til Íslands árið 1991. Hann kynntist fyrrverandi eiginkonu sinni, Auðbjörgu Halldórsdóttur, í Boston, þar sem þau voru bæði við nám í Boston University. Þau giftust árið 1992 og skildu 2021.

Frank kom víða við á starfsævi sinni á Íslandi. Hann kenndi m.a. ensku við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum og þýsku við Menntaskóla Borgarfjarðar. Hann stofnaði og rak veitingastaðinn Vegamót 1997-2000, sem nú er rekinn undir heitinu Bastard, og Reykjavík Bagel Company árið 2003-2005. Auk þess að stunda ýmis viðskipti starfaði Frank undanfarin ár sem leiðsögumaður og pistlahöfundur fyrir Iceland Review þar sem eftir hann liggja ótal fróðlegar greinar og hlaðvörp sem tengjast sögu Íslands.

Frank var með eindæmum fróður og mikill áhugamaður um sögu, pólitík og vísindi. Hann lærði í Þýskalandi, Íslandi, Frakklandi og Belgíu og var með háskólagráður frá Boston University, Institut Superieur de Gestion í París og KU Leuven í Belgíu. Hann var mikill málamaður og talaði, auk ensku sem var móðurmál hans, þýsku, frönsku, íslensku og flæmsku og lagði undanfarin ár stund á spænsku. Hann var víðförull og forvitinn; lærði köfun, var með einkaflugmannspróf og lék á fjölmörg hljóðfæri.

Eftirlifandi foreldrar Franks eru Victoria Leigh, f. 1939, og Frank E. Sands, f. 1936. Stjúpforeldrar Franks eru Brinna B. Sands, f. 1939, og Timothy Weaver, f. 1940. Þau eru búsett í Bandaríkjunum.

Útför Franks fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík föstudaginn 18. október kl. 13.00.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert