„Búin að vera lengi í andarslitrunum“

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokk fólksins.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokk fólksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Við hjá Flokki fólksins erum svo sannarlega tilbúin í kosningar,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson, formaður þingflokks Flokks fólksins, í samtalið við mbl.is.

Guðmundur Ingi reiknar með því að Flokkur fólksins stilli upp á lista sína en búið sé að koma á fót uppstillinganefnd innan flokksins.

„Ég held að við verðum með uppstillingar enda það eina sem dugar núna þar sem það er svo skammur tími til stefnu,“ segir þingflokksformaðurinn.

Guðmundur Ingi segir að það hafi ekki komið sér á óvart að ríkisstjórnin hafi sprungið í gær.

„Ég var í vöfflukaffi hjá Flokki fólksins og sagði þar að þetta myndi gerast fyrir þriðjudaginn. Það var skrifað í skýin að stjórnin myndi á einhverjum tímapunkti springa enda búin að vera lengi í andarslitrunum og með bullandi sjálfsofnæmi fyrir sjálfri sér,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Ingi segir að Flokkur fólksins sé í fínum málum og flokkurinn hafi verið byrjaður að undirbúa kosningar.

„Við höfum fundið fyrir miklum meðbyr og það var til að mynda fullt út að dyrum á fundi sem við héldum í Kænunni í Hafnarfirði á dögunum. Það er mikil tilhlökkun í okkar herbúðum fyrir væntanlegum kosningum. Við erum svo sannarlega klár í slaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert