Efast um að hann fái að koma nálægt Skaupinu

Jón Gnarr stefnir ótrauður á þing fyrir Viðreisn.
Jón Gnarr stefnir ótrauður á þing fyrir Viðreisn. mbl.is/María Matthíasdóttir

Jón Gnarr hefur ekki hugmynd um það hvort hann á minni möguleika á leiðtogasæti hjá Viðreisn í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna ef farið verður í uppstillingu á lista en ekki prófkjör eins og til stóð. Hann vonast þó til að verða í efstu sætum og stefnir ótrauður á þing. Vendingar í pólitíkinni síðasta sólarhringinn hafa engu breytt hvað það varðar.

„Það hefur ekkert breyst hvað mig varðar, en svo getur vel verið að aðstæður hafi breyst. Ég veit það ekki alveg, en ég stefni ennþá á að vera í framboði fyrir Viðreisn í næstu alþingiskosningum,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

Taldi sig geta unnið konurnar

Tekin verður ákvörðun um það hjá Viðreisn í vikunni hvort farið verður prófkjör eða uppstillingu á lista, en einhverjir flokkar hafa nú þegar gefið út að farið verði í uppstillingu þar sem tíminn sé of knappur fyrir prófkjör ef kosið verður í lok nóvember.

Jón lýsti því yfir í lok september að hann sæktist eftir leiðtogasæti hjá Viðreisn fyrir næstu þingkosningar, en í kjördæmunum sem koma til greina sitja þær Þorbjörg Sigríður Guðlaugsdóttir og Hanna Katrín Friðriksson. Í viðtali í Dagmálum nýlega sagðist Jón telja að hann myndi auðveldlega vinna þær.

Bjarni klókasti stjórnmálamaðurinn

Ákvörðun um að stefna á þing var tekin að vel ígrunduðu máli og Jón gerir sér grein fyrir því að yfirlýsing um slíkt hafi afleiðingar í för með sér. 

„Þetta var svolítið stór ákvörðun hjá mér að breyta algjörlega um vettvang í lífinu. Að fara úr því að vera starfandi listamaður og tilkynna að ég ætli að fara út í pólitík, það í sjálfu sér lokar fyrir fjölda möguleika. Ég til dæmis stórefa að mér verði boðið að koma einhvers staðar nærri Skaupinu,“ segir Jón kíminn. 

„Ég kem ekki fram með svona yfirlýsingar nema að vandlega hugsuðu máli því ég veit að þetta hefur afleiðingar. Svo kemur Bjarni Benediktsson með þetta útspil. Það sem stendur uppúr í mínum huga er að Bjarni Benediktsson er allra klókasti stjórnmálamaður sem við höfum nokkurn tíma átt.“

Af hverju telurðu svo vera?

„Að vera ófyrirsjáanlegur í pólitík er einn mesti styrkleikinn. Ég held að hann hafi enn og aftur sýnt að hann getur verið mjög ófyrirsjáanlegur. Þetta virðist hafa komið flatt upp á marga, meira að segja hans nánast samstarfsfólk. Ég held að með þessu hafi hann bæði styrkt sína persónulegu stöðu, styrkt stöðu sína inna Sjálfstæðisflokksins og það kæmi mér ekki á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn fengi mikla fylgisaukningu eftir þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert