„Fólk virðist jafnvel ekki vita af þessum framkvæmdum af því að þær hafa ekki verið kynntar nógu vel fyrir nærhverfum,“ segir Vignir Sverrisson, íbúi í Rimahverfi, í samtali við mbl.is um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi sem leggst þungt á íbúa borgarhlutans.
Alls hefur 156 umsögnum verið skilað inn í Skipulagsgátt um málið, og er drjúgur hluti þeirra umsagnir frá íbúum í Grafarvogi sem líst illa á þéttingaráformin. Vignir er meðal þeirra sem skilað hefur inn umsögn.
Vignir, sem hefur búið í Grafarvogi í um 23 ár, skrifaði pistil á Vísi á dögunum, þar sem umræðuefnið var þéttingaráform borgarinnar í Grafarvogi, og lýsti hann þar þungum áhyggjum íbúa Grafarvogs yfir framkvæmdunum.
„Ástæðan fyrir mínum greinarskrifum er að ég finn bara hvað fólk er óánægt hérna, það er að vonast eftir því að borgarfulltrúir standi við orð sín, að það verði ekki ráðist á hverfismynstrið og þetta verði gert með hagi íbúa að leiðarljósi."
Þá áréttar hann það að íbúar séu ekki ósáttir við framkvæmdir og uppbyggingu á svæðinu, en hún sé með öllu í ósamræmi við það sem var kynnt fyrir þeim í upphafi.
Að sögn Vignis skortir líka ásættanlega innviði samhliða framkvæmdunum, en til að mynda segir hann marga ósátta við áætlaða uppbyggingu bílastæðahúss ofanjarðar.
„Slíkt bílastæðahús er hvergi að finna í hverfinu, né í öðrum hverfum og á eftir að vera bara til ama fyrir íbúa og nágranna,“ segir Vignir.
Þá fer hluti uppbyggingar fram á svokölluðum grænum blettum í hverfunum, það er á grasgrónum svæðum, en Vignir segist telja íbúa almennt sætta sig við það þegar uppbygging er til þess gerð að bæta aðstöðu sem var þar áður. Fólk sé hins vegar ósáttara við áform um að byggja háhýsi og annað í þeim dúr.
„Þessar margra hæða blokkir, sem loka fyrir þessi útivistarsvæði, eru ekki í takt við þau fyrirheit sem voru gerð í aðdraganda þessarar kynningar. Það virðist bara vera sem þessar framkvæmdir geri ráð fyrir fleiri íbúum en hverfið ræður við án þess að það þurfi að breyta því algjörlega.“
Elísabet Gísladóttir, formaður íbúasamtaka Grafarvogs, ræddi við mbl.is í síðustu viku um þéttinguna, en þá sagðist hún telja áformin leggjast á öll hverfin þar.
Íbúarnir mótmæltu þéttingaráformunum harðlega á fjölmennum fundi íbúa allra hverfa Grafarvogs sem haldinn var á Borgarbókasafninu í Spönginni í síðustu viku, en undir liggja átta af níu hverfum Grafarvogs sem borgin fyrirhugar að sögn Elísabetar að raska.
Nokkrir undirskriftarlistar gegn framkvæmdunum hafa verið settir af stað og þá hafa íbúar einnig tekið sig til og skrifað umsagnir í Skipulagsgátt.
Aðspurður hvað hann vonist til að verði gert, segir Vignir einfaldlega vonast til þess að það verði hlustað á íbúana. „Ég vona að borgaryfirvöld sýni okkur þá kurteisi að leyfa okkur að hafa eitthvað um hverfið okkar að segja, því það er ástæða fyrir að við búum þarna, við viljum ekki búa í þéttri byggð.“