„Ég var að koma úr háskólanum hérna í Kraká og það er svo merkilegt að hér hafa yfir hundrað íslenskar bækur verið þýddar yfir á pólsku,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í samtali við mbl.is en á föstudaginn, þegar færi gafst á viðtali, var hún stödd í opinberri menningarheimsókn til Póllands hvar heimamenn eru allir hinir áhugasömustu um að efla menningartengsl landanna.
Skyldi engan undra í ljósi þess að pólskir borgarar hafa nú um langt árabil litið á Ísland sem eftirsóknarvert atvinnusvæði og flykkst til landsins í leit að tekjum sem ekki bjóðast í heimalandinu auk þess sem hrifning Íslendinga á grunnstörfum þeirra atvinnuvega, sem áður fóstruðu þjóðina upp við sitt brjóst, hefur dvínað með nýjum sjóndeildarhring ferðaþjónustu, hátækniiðnaðar, frumkvöðlastarfsemi og einfaldlega breyttra tíma.
Í framhaldi af því að ráðherra tæpir á þýðingavinnu Pólverja nefnir Lilja Dögg sérstaklega að skáldsaga Sigríðar Hagalín Björnsdóttur, Eyland, er meðal þýddra íslenskra verka í Póllandi og þykir þar engin bókmenntaleg flatneskja á ferð, öðru nær, skipar Hagalín þann heiðurssess að vera valbók unglinga á pólsku menntaskólastigi.
Mætti því ef til vill heimfæra lýsingu Njálu á Unni, dóttur Marðar gígju, á Sigríði og segja að hún sé „væn kona, kurteis og vel að sér og þótti sá bestur kostur á Rangárvöllum“, fyrir utan að hér leysti Pólland Rangárvelli af.
Og þar sem fullkomlega gagnslausar upplýsingar eru ómissandi í viðtölum við íslenska ráðherra má geta þess að Lilja Dögg, Sigríður Hagalín og sá blaðamaður sem hér ritar sátu öll saman í 4. bekk B Menntaskólans í Reykjavík fyrir vel rúmum 30 árum. Eitthvað sem hefði talist einstök tilviljun alls staðar annars staðar en á Íslandi og í Færeyjum.
„Við vorum hér hvort tveggja til að hitta menningarmálaráðherrann og ráðherra efnahags- og tæknimála,“ heldur Lilja Dögg áfram svo hún fái nú að komast að í eigin viðtali, „við höfum verið að fara yfir menningarsamstarf þjóðanna sem nú er þegar orðið mikið. Þegar ég var menntamálaráðherra gerðum við samninga um og hófum kennslu í pólskum fræðum í Háskóla Íslands og farið var að kenna pólsku í 24 skólum á Íslandi til að auka tengsl þeirra Pólverja sem eru á landinu,“ segir Lilja Dögg frá.
Eykur hún því þar við að á fundi hennar og efnahags- og tækniráðherrans, Krzysztof Paszyk, hafi áhugi Pólverja á orkunotkun á Íslandi komið glögglega fram ásamt framtíð grænnar orku og þeirrar þróunar sem Íslendingar vinna nú að í tengslum við orkuskiptin svokölluðu.
„Við buðum honum í heimsókn, hann hefur mikinn áhuga á að heimsækja Ísland, og svo hitti ég líka menningarmálaráðherrann, hana Hönnu Wróblewska, sem hefur sérstaklega mikinn áhuga á því hvernig við höfum komið íslenskunni inn í öll tækin okkar, sérstaklega gervigreindina, og þau boðuðu að þau hefðu mikinn áhuga á að fá okkar færasta fólk í máltækni á ráðstefnu sem hér stendur til að halda. Pólverjar hafa mikinn áhuga á að kynna sér það sem við erum að gera á þessum vettvangi,“ heldur ráðherra áfram.
Enn fremur kveðst Lilja Dögg hafa sótt tónleika á fimmtudagskvöldið við Jagiellonian-háskólann í Kraká sem hafi verið upplifun sem lengi muni uppi verða.
„Þar var verið að spila Augun mín og augun þín [hina kunnu vísu Vatnsenda-Rósu] og Sigvalda Kaldalóns. Þarna voru þrír bræður fæddir á Ísafirði, þeir Nikodem Júlíus Frach, Maksymilian Haraldur Frach og Mikolaj Ólafur Frach. Þeir eru framúrskarandi tónlistarmenn í píanóleik og á fiðlu. Þeir skipulögðu þetta og það var hreinlega yndislegt að heyra Þú eina hjartans yndið mitt í flutningi þeirra,“ segir ráðherra og leynir ekki hrifningu sinni yfir pólsk-ísfirsku tónlistarbræðrunum Frach.
Meðan á heimsókninni stóð ávarpaði Lilja Dögg gestgjafa sína á ráðstefnu um íslensk fræði og gerði Grettis sögu Ásmundarsonar að yrkisefni sínu, „átökin sem birtast þar og hvernig ljóðin í Grettis sögu eru til þess fallin að fá hjörtu þeirra, sem upplifðu öll þessi átök, til að slá örar“, segir ráðherra og kveðst enn fremur hafa rætt tungumál þjóðanna og mikilvægi þess að auka samskipti Íslands og Póllands í menningarlegu tilliti.
„Hér er íslenska kennd í þremur háskólum,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, að skilnaði – og viti menn: Þegar íslenskum augum er gotið að Póllandi austur í álfu í viðtalslok, með þá staðreynd í veganesti að auki að Sigríður Hagalín Björnsdóttir á þar valbók pólskra grunnskólanema, hafa samskipti þessara nánu, en þó tiltölulega nýju, „grannþjóða“, þá ekki aukist nánast á heimsmælikvarða frá því á ofanverðri öldinni sem leið? Spyrjum að leikslokum.