„Auðvitað tala ég bara um ástandið sem er uppi og hvernig við lítum á stöðuna eins og hún er og hvaða afstöðu við höfum gagnvart þessum leik Bjarna Benediktssonar sem hann er búinn að setja í gang,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata.
Ræddi hún stuttlega við blaðamenn áður en hún hélt á fund forseta kl. 16.45.
Segir Þórhildur að Bjarni eigi ekki einn að fá að stjórna för og fyrst hann geti ekki verið í ríkisstjórn þá þurfi þingið allt að fá að hafa sitt um það að segja.
„Að það sé ekki hans að setja upp einhverja tímalínu og að allir gangi svo bara í takt.“
Þá finnst henni að Bjarni ætti að biðjast lausnar úr embætti sínu.
Spurð hvort það sé eðlilegt, ef stjórnarflokkarnir vilji halda áfram að starfa saman fram að kosningum og forseti samþykki þingrof, segir Þórhildur að sjá verði hvort það gangi eftir.
„Ég veit ekki hvort það gerist. Mér finnst ekkert eðlilegt við þessar aðstæður eins og þær eru, þannig ég held að það sé mikilvægt að við veltum upp öllum flötum og sjáum hvernig er best að lenda þessu.“