„Ekki boðlegt“ frá RÚV: „Einhver furðukenning“

Bjarni Bene­dikts­son for­sæt­is­ráðherra.
Bjarni Bene­dikts­son for­sæt­is­ráðherra. mbl.is/Eyþór

„Það væri sögulegt,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, spurður í Silfri ríkisútvarpsins í kvöld hvað myndi gerast ef einn ráðherra í skipaðri starfsstjórn sætti sig ekki við að starfa undir forystu Bjarna.

„Fyrirgefðu, þú segir undir minni forystu. Sjáðu til, eftir að ég biðst lausnar þá er komin yfirlýsing um það að það er ekki lengur meirihlutastjórn starfandi – það er ekki meirihlutasamkomulag,“ sagði Bjarni þegar hann svaraði þáttastjórnanda ríkisútvarpsins.

„Þannig að ráðherrar eru eingöngu að starfa í starfsstjórn, og gegna sínum starfsskyldum sem ráðherrar, ekki á grundvelli þess að þeir sitji þar í trausti meirihlutastuðnings þingsins, heldur eingöngu til þess að hérna sé ríkisstjórn til staðar, fyrir þau verkefni sem þurfa að vera leyst af hendi, án þess að það sé einhver ný pólitísk stefnumörkun fram að kosningum,“ sagði hann.

„Þetta er bara stutt tímabil,“ hélt hann áfram áður en þáttastjórnandinn greip fram í og vísaði til þess að Svandís Svavarsdóttir formaður Vinstri grænna hefði aðspurð lagt til Sigurð Inga Jóhannsson formann Framsóknar sem forsætisráðherra í starfsstjórn.

Greip fram í fyrir Sigurði Inga

„En þú heyrir hvað Svandís er að segja,“ sagði þáttastjórnandinn Bergsteinn Sigurðsson.

Bjarni svaraði:

„Já, þetta er bara einhver furðukenning sem ég hef aldrei heyrt áður. Að hún sé með hugmynd um að mynda nýja starfsstjórn með öðrum forsætisráðherra. Þetta er bara einhver misskilningur, því miður.“

Næst var þeirri spurningu beint að Sigurði Inga, hvort hann hefði skoðun á þessu og hvort hann sæi fyrir sér að leiða starfsstjórn með sig í forsæti.

„Hef ég skoðun? Já, ég hef fullt af skoðunum. Sko, fyrst vil ég segja,“ svaraði Sigurður Ingi áður en Bjarni greip fram í.

„Þetta – það er ekki boðlegt að ríkisútvarpið tali um starfsstjórn með nýjum forsætisráðherra. Bara fyrirgefiði, ég verð að gera athugasemd við þetta,“ sagði Bjarni.

„Ég hef þetta eftir Svandísi,“ svaraði Sigríður Hagalín þáttastjórnandi.

Svandís Svavarsdóttir formaður VG gekk til fundar við forseta í …
Svandís Svavarsdóttir formaður VG gekk til fundar við forseta í dag. mbl.is/Arnþór

Best að kjósa sem fyrst, sagði Sigurður Ingi

„Við verðum að nota bara hugtakið starfsstjórn,“ sagði Bjarni, „fyrir það fyrirbæri sem starfsstjórnir eru. Það er stjórn sem hefur skilað inn umboði sínu og er beðin af forseta að starfa þar til kosið hefur verið eða nýr meirihluti myndast.“

Sigurður Ingi fékk aftur orðið og sagði að eðlilegt væri að við tæki starfsstjórn, þegar Bjarni myndi biðjast lausnar.

„Ég hef lýst því við forsetann og sagði það reyndar við fjölmiðla líka í dag, að ég og við í Framsókn myndum vera tilbúin að taka sæti í slíkri starfsstjórn.“

Sagði hann ástæðuna vera þá að á borði ríkisstjórnarinnar væru verkefni á viðkvæmum tíma, meðal annars sökum árstíma, og vísaði þá að líkindum til fjárlagafrumvarpsins. Rakti hann í kjölfarið forgangsröðun verkefna og að hann hefði meðal annars verið að skoða hvernig hægt væri að hraða framgöngu fjárlaga.

Að hans mati væri best að kjósa sem fyrst, úr því að þessi staða sé komin upp.

„Ef það væri hægt að kjósa 23. nóvember, þá myndum við í Framsókn styðja slíkt,“ sagði Sigurður Ingi.

Gleðst yfir stuðningnum

„Að einhverjir styðji mig sem forsætisráðherra, á einhverjum tímapunkti, er ég bara glaður með. En það hefur ekkert [að gera] með það sem ég var að tala um, og skoðanir mínar snúast um það að taka höndum saman um þessi verkefni – það þarf allur þessi hópur að gera, þegar það er komin starfsstjórn,“ bætti hann við.

„En verkstjórnin þarf eðli máls [samkvæmt] að koma að einhverju leyti úr ráðuneytunum, þar sem ráðherrarnir sem mest og gleggst þekkja, starfa.“

Svandís, spurð hvort hún vildi bregðast við því sem Bjarni hefði sagt, sagði að ríkisstjórnin stæði frammi fyrir ákveðnum pólitískum veruleika.

„Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, getur ekki einn stýrt framvindunni og tekið ákvörðun um að slíta hér ríkisstjórnarsamstarfi og talið svo að í framhaldinu hafi hann öll spil á hendi. Við skulum bara ræða það hvaða möguleikar eru komnir upp og hverjir möguleikarnir eru í stöðunni,“ sagði Svandís.

Allir flokkarnir þyrftu að taka þátt í að leysa það pólitíska úrlausnarefni sem lægi á borðinu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, fyrir utan Staðastað við Sóleyjargötu.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, fyrir utan Staðastað við Sóleyjargötu. mbl.is/Arnþór

Þingflokkur VG útilokar forystu Bjarna

„En ertu ekki með öðrum orðum að hafna því að sitja í starfsstjórn sem Bjarni Benediktsson er í líka?“ spurði Bergsteinn.

„Nei, ég er ekki að því,“ svaraði Svandís snögglega. „Ég er bara að segja það, að þingflokkur VG hefur tekið um það ákvörðun, að taka ekki þátt í ríkisstjórnarsamstarfi sem Bjarni Benediktsson leiðir.“

Þótt það verði í starfsstjórn?

„Já,“ svaraði hún.

Bjarni greip orðið.

„Ég verð nú bara að játa það að ég skil ekki hvernig farið er með hugtakið starfsstjórn hérna. Og ég ætla ekki að þreyta hlustendur og áhorfendur hérna meira á þessu,“ sagði hann og hló á meðan hann hélt áfram:

„Þetta hlýtur að vera eitthvað það leiðinlegasta sjónvarpsefni sem hefur heyrst. En það er bara eitt hugtak, sem heitir starfsstjórn, og það gildir fyrir þá stjórn sem hefur skilað inn umboði sínu þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð, til dæmis eftir kosningar.“

„Þá er það bara fínt“

„Og það bara truflar mig ekki neitt,“ sagði Bjarni, „ef flokkarnir vilja ekki starfa í krafti meirihluta fram að þinglokum með ákveðinn lista, þá er það bara fínt. Ég sagði það strax á fyrsta fundi vegna þessa máls og nú hafa [Svandís og Sigurður Ingi] tilkynnt mér það að þeir telji að það sé enginn grundvöllur fyrir því að flokkarnir starfi á grundvelli meirihlutasamstarfs, um nokkurn hlut.

Það er þeirra val. Ég bauð upp á hitt. Og eigum við ekki bara að fara að tala um pólitíkina sem fólkið í landinu er að sækjast eftir. Ef menn ætla að fara í einhverjar æfingar, að búa til nýjan meirihluta og einhverja minnihlutastjórn og svona – ég segi bara fínt, takið bara allan tímann sem þið viljið í það, og gangi ykkur vel með að keyra þingið áfram í þeim krafti.

Og ég veit ekki hvaða mál menn láta sér detta í hug, að verði keyrð í gegnum þingið í krafti einhvers meirihluta í ósætti á næstu vikum. Þetta eru svolítið útópískar hugmyndir. Nú þurfum við að fara að tala um pólitík, framtíðina. Það sem varðar fólkið í landinu. Það var mín ákvörðun. Hún snerist um að færa fólkinu í landinu vald. Að kveða upp úr með það, hvaða stefnu ætti að fylgja inn í framtíðina. Það er það sem við þurfum að fara að ræða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka