Stjórnin er fallin og því ekki um annað að ræða en að kjósa. Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Hann ræddi við blaðamenn áður en hann gekk á fund Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, að Sóleyjargötu rétt í þessu.
„Það er ekkert um annað að ræða en að verða við beiðni forsætisráðherrans en að öðru leyti fer þetta nú bara eftir hvað forsetinn vill heyra frá mér og vita. Ég mun svara spurningum forsetans að sjálfsögðu,“ segir Sigmundur Davíð spurður hvaða skilaboð hann hefði til forseta Íslands.
Miðflokkurinn mælist nú næststærsti flokkur landsins. Aðeins Samfylkingin mælist með meira fylgi.
Halla ræðir í dag við formenn þingflokkanna eftir að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fór á fund hennar í morgun og óskaði eftir þingrofi.
Spurður hvort honum þætti eðlilegt að forsetinn yrði við beiðni Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra um þingrof, jafnvel þó hinir stjórnarflokkarnir væru ekki á sama máli svarar Sigmundur:
„Já, stjórnin er fallin og það liggur alveg ljóst fyrir að henni verður ekki skrúfað saman aftur. Þar af leiðandi er ekki um annað að ræða en að kjósa.“
Hann segir ríkisstjórnarflokkana verða að finna út úr því hvort þeir sitji við stjórnvölin fram yfir kosningar.
„Hvort þau geti þá verið í sama herbergi í nokkrar vikur í viðbót eða þá aðra leið í samráði við forsetann. En það er ekki hlutverk stjórnarandstöðunnar að finna út úr því.“