Fá auglýsingapláss í boði fyrir flokkana

Svartur föstudagur í Elko.
Svartur föstudagur í Elko. mbl.is/Árni Sæberg

Fari svo að alþingiskosningar verði haldnar 30. nóvember eftir að samstarfi ríkisstjórnarflokkanna var slitið um helgina gæti reynst erfitt fyrir stjórnmálaflokka landsins að koma stefnumálum sínum á framfæri í hinum ýmsu auglýsingaplássum.

Svartur föstudagur verður 29. nóvember og í kjölfarið lítur Stafrænn mánudagur dagsins ljós. Fleiri auglýsingar í tengslum við jólaverslunina verða einnig í algleymingi á þessum tíma.

Stærstu auglýsingadagarnir

„Það er allt uppselt fyrir þessa daga, meira og minna. Þetta eru stærstu auglýsingadagar ársins,” segir Jón Sæmundsson, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Ennemm, aðspurður.

Þar á hann meðal annars við vefmiðla, samfélagsmiðla og útiskilti en auglýsingarnar eru iðulega seldar í pökkum.

Jón segir auðveldara fyrir stjórnmálaflokkanna að auglýsa í sjónvarpi á þessum tíma, því þar sé enn pláss fyrir hendi.

Svartur föstudagur hefur notið mikilla vinsælda.
Svartur föstudagur hefur notið mikilla vinsælda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki besti tíminn fyrir kosningar

Spurður kveðst hann ekki vita til þess að auglýsingastofur séu teknar að ráða inn auka mannskap vegna fyrirhugaðra kosninga.

Hann segir að vissulega sé þetta ekki besti tíminn fyrir kosningar, ef hugsað er um auglýsingapláss fyrir flokka, en nefnir á móti að fólk fylgist kannski meira með fjölmiðlum og samfélagsmiðlum á þessum tíma.

„Það eru ekki allir á Tene,“ segir hann.

„Erfitt að fá réttu plássin“

Hallur Jónsson, sölustjóri og einn af eigendum Sahara, segir að búið sé að panta mikið af birtingarplássum nú þegar fyrir síðustu dagana í nóvember.

„Ég held að það gæti verið erfitt að fá réttu plássin á réttum tímum núna,“ segir Hallur, sem er sammála blaðamanni um að barátta stjórnmálaflokkanna um athygli verður hörð þessa daga, fari svo að kosningarnar verði haldnar þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert