Fá ekki að fullu greidda ólöglega skerðingu

Öryrkjar munu ekki fá endurgreiðslu á ólögmætum skerðingum nema að …
Öryrkjar munu ekki fá endurgreiðslu á ólögmætum skerðingum nema að hluta, aftur til ársins 2018. Tók Hæstiréttur undir afstöðu ríkisins um að eldri greiðslur væru fyrndar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi dæmt skerðingu Tryggingastofnunar á sérstakri framfærsluuppbót þegar bótaþegi hefur búið hluta starfsævi sinnar erlendis ólögmæta, þá fá þeir sem urðu fyrir skerðingu aðeins hluta upphæðinnar endurgreidda. Þetta varð ljós með dómi Hæstaréttar í dag, en í raun er um að ræða framhaldsdóm í tengslum við mál þar sem öryrki lagði Tryggingastofnun árið 2022.

Í því máli var um að ræða konu sem var með hámarksörorku (75% frá árinu 2011. Hún er ís­lensk­ur rík­is­borg­ari, fædd og upp­al­in hér á landi en bjó tíma­bundið í Dan­mörku. Í sam­ræmi við lög um al­manna­trygg­ing­ar á fólk rétt á full­um bót­um hafi það búið 40 ár á Íslandi milli 16 og 67 ára ald­urs, en hafi það búið styttra fær það bæt­ur í hlut­falli við bú­setu­tím­ann. Fékk  kon­an því 78,5% af full­um ör­orku­líf­eyri á Íslandi.

Tryggingastofnun endurgreiddi aðeins hluta tímabilsins

Þrátt fyrir að hin óheimila skerðing hafi staðið yfir í meira en 10 ár ákvað Tryggingastofnun að endurgreiða aðeins upphæðina fjögur ár aftur í tímann, þ.e. til ársins 2018.

ÖBÍ ákvað því að höfða annað dómsmál með skjólstæðingi sínum gegn Tryggingastofnun til að fá úr því skorið hvort ríkinu bæri ekki að greiða upphæðina yfir allt tímabilið.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í desember í fyrra að Tryggingastofnun bæri að leiðrétta hina óheimilu skerðingu til 1. janúar 2012.

Ríkið áfrýjaði málinu og var það tekið beint fyrir í Hæstarétti.

Hæstiréttur snýr við dómi héraðsdóms

Niðurstaða Hæstaréttar var að snúa við dómi héraðsdóms og sýkna Tryggingastofnun.

Telur rétturinn að eldri kröfur en frá 2018 séu fyrndar þrátt fyrir heimild í lögum um viðbótarfrest í kröfumálum þegar kröfuhafa skorti nauðsynlega vitneskju um kröfur sínar.

Hæstiréttur taldi hins vegar að ÖBÍ hefði haft nægjanlega vitneskju um kröfur sínar fram að dómsuppkvaðningu fyrra málsins og hefði átt að láta reyna á þær með höfðun dómsmáls sem hefði rofið fyrninguna.

„Þá taldi Hæstiréttur að Ö[BÍ] hefði mátt vera þetta ljóst vegna undanfarandi hagsmunagæslu fyrir lífeyrisþega og jafnframt að sömu upplýsingar hefðu verið nægjanlega aðgengilegar öðrum lífeyrisþegum, þar á meðal A [skjólstæðingur ÖBÍ], svo þeim hefði verið kleift að grípa til ráðstafana til að slíta fyrningu krafna sinna,“ segir í dómi Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert