Framhaldið í höndum kjósenda

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á blaðamannafundinum.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á blaðamannafundinum. mbl.is/Hákon

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hvetur sjálfstæðismenn til að þétta raðirnar og blása til sóknar fyrir komandi kosningar. Hann telur sig ekki eiga annarra kosta völ en að leggja framhaldið í hendur kjósenda. 

Þetta kemur fram í fjöldapósti sem Bjarni sendi til flokksmanna í kvöld. 

Bjarni sleit stjórnarsamstarfi við Vinstri græn og Framsóknarflokk fyrr í dag. Hann mun ganga á fund forseta Íslands klukkan níu í fyrramálið og leggja fram tillögu um þingrof. 

Stöðugleiki ekki það sama og stöðnun

Bjarni segir í bréfi sínu ríkisstjórnina hafa lagt grunn að góðri stöðu en að áframhaldandi árangur sé forsenda stjórnarsamstarfs:

„Stöðugleiki er ekki það sama og stöðnun. Það er til lítils að búa við vinnufrið ef vinnan sjálf er ekki til þess fallin að stuðla að frekari framförum. Undanfarið hef ég fundið fyrir áhyggjum ykkar af stöðu mála, of miklum málamiðlunum og takmarkaðri trú á að stefnumál okkar fái frekari framgang í vetur. Þetta ber mér skylda til að taka alvarlega,“ segir í bréfi Bjarna.

Hann telur að hann væri að bregðast sjálfum sér með því að þykjast geta leitt ríkisstjórn og klárað verkefni sem hafa verið á dagskrá á sama tíma og að hann sjái ekki fram á að ríkisstjórnin geti fundið sameiginlegan flöt á málunum.

Málamiðlanir segir hann eðlilegan hlut í stjórnarsamstarfi en að mörk séu á því í hve miklum mæli má miðla málum.

Stappar stálinu í samherja sína

Hann segir sjálfstæðisstefnuna hafa skilað íslensku samfélagi mestum árangri í áranna rás og tekur fyrir helstu málefni og að ástæða sé til að horfa björtum augum til komandi ára.

Þar næst fer hann yfir helstu stefnumál sjálfstæðisstefnunnar í útlendingamálum, orkumálum og efnahagsmálum:

„Auka þarf frelsi fólks í leik og starfi og hverfa frá þeirri hugsanavillu að ríkisstarfsmenn einir geti veitt tiltekna þjónustu eða afgreitt löglegar neysluvörur. Áfram mætti lengi telja.“

Að lokum stappar hann stálinu í samherja sína og hvetur þá til að leggjast sem eitt á árarnar.

„Við skulum þétta raðirnar og blása til sóknar. Fram undan er hörð og snörp kosningabarátta. Valkostirnir eru skýrir. Annars vegar vinstri stjórn, stóraukin útgjöld, sóun sameiginlegra fjármuna, hærri skattar og aukin skuldsetning. Hins vegar öflugur Sjálfstæðisflokkur sem getur leitt þjóðina inn í nýja tíma framfara og bættra lífskjara með frelsi einstaklingsins og athafnafrelsi að leiðarljósi,“ segir enn fremur í bréfi Bjarna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert