Bjarni Benediktsson forsætisráðherra gerði lítið úr orðum Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, sem sagði í gær að landsmönnum gæfist tækifæri í komandi kosningum til að fá „nýtt upphaf“ með Samfylkingunni eða „meira af því sama.“
„Ég hef heyrt þennan frasa áður, í Bretlandi og hér heima um nýtt upphaf. Menn eru að reyna að setja einhverja áferð á þetta. Þetta eru bara umbúðir. Ég ætla að tala um innihaldið,“ sagði Bjarni eftir fund sinn með Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, á Bessastöðum fyrr í dag.
„Innihaldið í því sem hún er að tala fyrir eru hærri skattar, stærra ríki, meiri millifærslur. Þetta hefur allt legið fyrir í tillögum fyrir þinginu. Við munum tala fyrir því að kraftmikið atvinnulíf þurfi að vera til staðar á Íslandi þar sem menn grípa tækifærin í orkunni, í ferðamennskunni, í nýjum greinum, í rannsóknatengdum- og þróunartengdum greinum,“ bætti Bjarni við.
Bent hefur verið á að þetta er í fyrsta skipti sem Sjálfstæðiflokkurinn hefur slitið stjórnarsamstarfi og að slíkt komi niður á ímynd hans sem stjórntæks flokks. Bjarni gaf ekki mikið fyrir þessar skýringar.
„Margir núna sé ég eru að velta fyrir sér stjórnmálasögunni og mér gæti ekki verið meira sama um alla spekingana sem nú segja: „Ja þetta voru ekki nema svona margir dagar í embætti og þetta verður skrifað í sögubækurnar og annað.“ Það skiptir mig bara nákvæmlega engu máli. Það eina sem skiptir máli núna er að við þurfum sterkara umboð. Ég þarf stærri Sjálfstæðisflokk og meiri styrk á þinginu til þess að leggja þessar skýru línur inn í framtíðina.“
Bjarni var jafnframt spurður um ákvörðun sína að ætla að leiða flokkinn áfram sem formaður inn í kosningarnar. „Ég efast ekki um að mitt fólk ætlast til að formaðurinn rísi undir þeirri ábyrgð sem fylgir því að vera formaður Sjálfstæðisflokksins. Meðan ég er í þessu embætti geri ég allt sem ég tel vera best fyrir flokkinn og að sjálfsögðu trúi ég því að það sem er best fyrir flokkinn gagnist þjóðinni vel,“ sagði hann.
Svaraði hann því játandi að hafa fullan stuðning þingflokksins og gerði svo lítið úr nýlegum skoðunarkönnunum, en fylgi flokksins hefur mælst mjög lágt undanfarið og flokkurinn verið þriðji stærsti flokkurinn í nýjustu könnunum. Sagði Bjarni það vera sitt verkefni að lyfta flokknum og að hann væri ekki að horfa á fylgi í könnunum sem ætti það til að sveiflast mikið. Hann vildi þess í stað horfa á málefnin.
Spurður um fyrirkomulag uppstillingar á lista hjá Sjálfstæðisflokknum sagði Bjarni að það væri í höndum kjördæmisráða að ákveða það. Nefndi hann að búið væri að afnema tímafresti sem áður hefðu getað komið í veg fyrir prófkjör með skömmum fyrirvara.
Að lokum var Bjarni spurður út í ummæli Svandísar Svavarsdóttur, nýkjörins formanns Vinstri grænna, í gær um óheilindi hans í tengslum við þingrofstillöguna. „Mér þykir mjög slæmt að hún notaði orðið óheilindi og tel að það hafi fallið í þeim æsingi sem var í gær. En það er ósætti og ekki sameiginleg sýn. Þegar fólk er ekki sammála er það ekki sama og óheilindi,“ svaraði Bjarni.