„Gat raunverulega ekki endað öðruvísi“

Bergþór Ólason, formaður þingflokks Miðflokksins.
Bergþór Ólason, formaður þingflokks Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bergþór Ólason, formaður þingflokks Miðflokksins, segir að tíðindin í gær um að ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna hafi verið slitið hafi ekki komið sér á óvart.

Bergþór sagði í samtali við mbl.is í gær áður en Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tilkynnti um stjórnarslitin að það blasti við að ríkisstjórnin væri í einhverri eigin líknandi meðferð þessa dagana.

„Mér þótti allt benda til þess að þetta yrði niðurstaðan. Innri meinin sem höfðu verið svo greinileg lengi á milli stjórnarflokkanna voru einhvern veginn orðin þannig áberandi að þetta gat raunverulega ekki endað öðruvísi,“ segir Bergþór við mbl.is.

Uppstillingarleiðin líklegri

Hvað tekur við hjá Miðflokknum núna varðandi skipulag fyrir fyrirhugaðar kosningar í næsta mánuði?

„Það eru kjördæmafélögin sem taka ákvörðun hvernig málum verði háttað og þau funda í kvöld. Mér þykir það svona líklegast, bara í ljósi þess knappa tímaramma sem flokkar standa frammi fyrir, að uppstillingarleiðin sé líklegri,“ segir Bergþór.

Koma væntanlega kosningar ekki á fínum tíma fyrir Miðflokkinn í ljósi fylgiskannana þar sem flokkurinn er á mikilli siglingu?

„Hvað hagsmuni Miðflokksins varðar þá var ég svo sem til í kosningar hvenær sem er en taldi að þær mættu ekki fara fram síðar en í vor. Ég held að þetta sé bara ágætt að almenningur komist að borðinu með þeim hætti að fá að greiða atkvæði aftur um hverjir taka næstu skref hvað stjórnun landsins varðar,“ segir hann.

Bergþór segir að kosningar í nóvember sé kannski ekki óskadagsetningin ef menn hafi alla daga ársins sem valkosti en það verði leyst eins og annað.

Útlendingamálin, ríkisfjármálin og orkumálin

Spurður hvað hann vilji sjá gerast eftir kosningar segir hann:

„Það er skynsamlegast að úttala sig lítið í þeim efnum en það er auðvitað stjórn sem þarf að leggja áherslu á stjórn á þessum málaflokkum sem hafa verið í hvað mestu stjórnleysi eins og útlendingamálin, ríkisfjármálin og orkumálin.“

Hann segir að það sé heppilegt fyrir Miðflokkinn að þetta séu þau mál sem flokkurinn hafi lagt megináherslur á frá því á síðasta kjörtímabili.

„Við erum ágætlega skóaðir fyrir samtal á þeim nótum og erum klár í slaginn. Það eru snarpar en skemmtilegar sex til sjö vikur fram undan,“ segir Bergþór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert