Handtekinn eftir líkamsárás með hníf

Maðurinn var vistaður í fangaklefa lögreglu.
Maðurinn var vistaður í fangaklefa lögreglu. Ljósmynd/Colourbox

Karlmaður var handtekinn eftir líkamsárás með hníf. Áverkar voru minniháttar. Maðurinn var vistaður í fangaklefa sökum rannsóknar málsins.

Lögreglustöð 1 fór í útkallið en hún sinnir verkefnum í Austurbæ, Vesturbæ, miðbæ Reykjavíkur og á Seltjarnarnesi.

Handteknir á stolnum bíl

Tveir voru handteknir á stolnum bíl og er ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Tilkynnt var um þjófnað úr verslun. Maður var talinn hafa farið út með tvær flíkur. Málið er enn í skoðun og verður kært þegar og ef gögn liggja fyrir, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun. 34 mál eru skráð í kerfi lögreglunnar á tímabilinu, þar af níu þar sem fólk verður kært og mál þeirra fara í rannsókn.

Reyndi að stinga lögregluna af

Tilkynning barst um einstakling sem var til ama í verslunarhúsnæði. Hann sást aka á brott og vissu lögreglumenn að hann væri án ökuréttinda. Hann reyndi að komast undan á fæti en lögreglan sá við honum. Viðkomandi verður kærður fyrir að aka ítrekað sviptur ökuréttindum og að sinna ekki stöðvunarmerkjum lögreglu.

Afskipti voru höfð af tveimur ökumönnum í vesturborginni. Annar var án gildra ökuréttinda og hinn að tala í símann.

Tilkynnt var um umferðaróhapp. Annar ökumannanna stakk af frá vettvangi. Engin meiðsli urðu á fólki.

Einnig var tilkynnt um innbrot í skóla og er málið í rannsókn.

Kærð fyrir ofbeldi gegn lögreglu

Í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna þjófnaðar í verslun.

Í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti voru afskipti höfð af ölvuðum ungmennum. Ein stúlka var kærð fyrir ofbeldi gegn lögreglunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert