Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, útilokar ekki að mynda ríkisstjórn með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, á nýjan leik. Þá útilokar hann heldur ekki stjórnarsamstarf með neinum öðrum flokki.
Hann ræddi við blaðamenn að loknum fundi með Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands. Á fundinum sagði hann við forsetann að honum þætti skynsamlegast að rjúfa þing og boða til kosninga, eins og forsætisráðherra hefur lagt upp með.
Sigmundur kveðst ekki hafa áhyggjur af þeim skamma tíma sem yrði þá til kosninga, ef sú leið yrði valin, og rifjar upp að þegar Miðflokkurinn var stofnaður hefðu aðeins gefist þrjár vikur til að stilla upp lista.
Sigmundur byrjaði á að grínast í blaðamönnum sem biðu í ofvæni eftir að formaður flokksins, sem mælist nú með næstmesta fylgið, kæmi út.
„Ég hef tekið að mér að leiða starfstjórn fram að næstu kosningum,“ sagði miðflokksmaðurinn er hann var nýkominn út af fundi Höllu. „Náði ég ykkur?“ sagði hann svo og uppskar mikinn hlátur blaðamanna.
„Þetta var bara ljómandi gott spjall um stöðuna í stjórnmálunum og væntingar fyrir þessar kosningar, hvaða mál verða ofarlega á baugi, sem að forsetinn er áhugasamur um að fylgjast með þó að forsetinn taki augljóslega ekki þátt í Alþingiskosningunum.
Og svo er verið að biðja um mat á þeirri stöðu sem upp er komin og hvort menn sjái aðrar leiðir færar en er eiginlega orðinn hlutur. Ég hef bara svarað því á sama hátt og ég hef ímyndað mér að fulltrúar hinna flokkana muni gera,“ sagði Sigmundur.
„Það er ekkert annað í stöðunni úr þessu annað en að verða við beiðninni og kjósa.“
Nú varst þú í ríkisstjórn með Bjarna Benediktssyni sem flosnaði upp úr. Kemur til greina að mynda aftur stjórn með honum eftir kosningar?
„Það kemur að sjálfsögðu til greina og það kemur til greina með öðrum flokkum líka, við höfum ekki útilokað neinn fyrirfram. Þetta er það sama og alltaf, það eru málefnin sem munu ráða því með hverjum við myndum ríkisstjórn. Þeim sterkari sem staða okkar verður eftir kosningar þeim mun betur verðum við í stakk búnir til að knýja á um þau mál.“
Spurður hvers konar stjórn væri hægt að mynda fram að kosningum, ef Vinstri græn og Framsókn myndu hafna frekara samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, svarar Sigmundur:
„Nú er enn þá óvissa hvort þessi ríkisstjórn sitji áfram sem slík eða sem starfsstjórn og hvort allir flokkarnir taki þátt í henni en það er ekkert svo sem hægt að gera í því ef að það er mynduð minnihluta stjórn við þessar aðstæður.
Ekki færu menn að lýsa yfir vantrausti á hana þegar það er þegar búið að boða til kosninga með mjög skömmum fyrirvara. Í samráði við forsetann auðvitað myndu flokkarnir allir eða hluti þeirra leiða starfstjórn fram að kosningum ef ekki verður samstaða um annað.“