Össur segir söguna munu endurtaka sig

Össur fer yfir stöðuna sem er uppi.
Össur fer yfir stöðuna sem er uppi. mbl.is/Eyþór

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, telur líklegast að Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknar endi kjörtímabilið sem forsætisráðherra.

Í færslu á Facebook-síðu sinni ber Össur saman þingrofstillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, árið 2016 og þingrofstillögu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra nú í dag.

Svona endurtekur sagan sig

Össur rifjar upp að degi eftir að Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti Íslands, „nánast henti“ Sigmundi út af Bessastöðum hafi Sigurður Ingi orðið forsætisráðherra.

Össur bar saman orð Bjarna eftir fund með Höllu Tómasdóttur forseta Íslands í morgun og orð Svandísar Svavarsdóttur formanns Vinstri grænna eftir fund hennar við Höllu fyrr í kvöld.

Bjarni sagði í morgun að eðlilegast væri að núverandi ríkisstjórn sæti áfram til kosninga, en ef samstarfsflokkarnir vildu það ekki þá myndi hann leggja fram lausnarbeiðni fyrir ríkisstjórnina.

Svandís sagði svo í kvöld að mikilvægast væri að Bjarni bæðist lausnar og að hún gæti hugsað sér bráðabirgðastjórn þar sem Sigurður Ingi yrði forsætisráðherra. 

Segir Bjarna hljóta að biðjast lausnar

Össur segir að samkvæmt eigin yfirlýsingu hljóti Bjarni að mæta á Bessastaði á morgun til að afhenda forseta lausnarbeiðni ríkisstjórnar sinnar.

Segir hann líklegast að Sigurður Ingi endi kjörtímabilið sem forsætisráðherra. Þar með hafi leikrit Bjarna, eins og hann kallar það, ekki gengið upp.

„Svona endurtekur sagan sig. Þegar menn setja upp leikrit þarf að hugsa það til enda. Það gerðist ekki 2016, og ekki heldur 2024,“ segir Össur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert