„Panikk búið að grípa um sig“

Þórhildur Sunna fundaði með forseta Íslands fyrr í dag.
Þórhildur Sunna fundaði með forseta Íslands fyrr í dag. mbl.is/Eyþór

„Við áttum bara gott og hreinskilið samtal um stöðuna, um hvaða verk þarf að klára áður en við getum farið í kosningar og einmitt þetta að tímalínan sé kannski ekki endilega alfarið á stjórn forsætisráðherra. Það eru auðvitað fleiri sem hafa eitthvað um þessi mál að segja, þar með talið Halla sjálf,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata um fund sinn með forseta Íslands.

Segist hún þá vera spennt fyrir að heyra hvað Sigurður Ingi og Svandís Svavarsdóttir, formenn Framsóknarflokks og Vinstri grænna, segja um framhaldið.

Segist Þórhildur næst vilja sjá samtal fara af stað um hvernig ætti að afgreiða fjárlög.

„Hvort að við þurfum yfir höfuð að afgreiða fjárlög eða getum gert einhverjar aðrar ráðstafanir til þess að tryggja að það fari auðvitað ekki neitt á hliðina. En við þurfum kannski ekki að vera að eyða of miklum tíma í að koma okkur saman um nákvæmlega hvernig fjárlögin líta út, svona í aðdraganda kosninga. Ég held að það sé ekki endilega skynsamlegt.“

Viðbrögð Bjarna einkennst af taugaveiklun

Þórhildur segist sjá fyrir sér að kosningar þurfi ekki endilega að vera 30. nóvember.

„Við getum alveg andað aðeins í kviðinn. Mér finnst svolítið svona panikk búið að grípa um sig.“

Segir hún að sér finnist sem viðbrögð Bjarna hafi einkennst af taugaveiklun og ákveðinni tilætlunarsemi gagnvart öllum öðrum á Alþingi.

„Að þeir bara standi og sitji eftir hans fyrirætlunum og án þess að hann ræði við kóng né prest fyrir það.“

Hvenær vilt þú sjá kosningar?

„Ég hugsa að við getum alveg þolað að bíða í eina aukaviku að minnsta kosti, til þess að gefa fólki smá andrými og til þess að gefa málefnunum svolítið pláss. Ég held að ef við erum öll á hlaupum þá sé það ekki gott.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert