Segja menntakerfið hafa brugðist borgarstjóra

Ummæli borgarstjóra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna féllu vægast sagt í grýttan …
Ummæli borgarstjóra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna féllu vægast sagt í grýttan jarðveg. mbl.is/Eyþór

„Einar Þorsteinsson hefur farið í gegnum þetta menntakerfi og það má segja að það hafi brugðist honum. Hann hefur greinilega ekki lært almenna kurteisi!“

Þetta segja kennarar við Stóru-Vogaskóla í Vogum á Vatnsleysuströnd í ályktun sem þeir sendu frá sér í morgun vegna ummæla Einars Þorsteinssonar borgarstjóra sem hann lét falla á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í síðustu viku. 

„Mér finnst ein­hvern veg­inn öll „statistic“ bara um skól­ana okk­ar benda til þess að við séum að gera eitt­hvað al­gjör­lega vit­laust. Að kenn­ar­arn­ir séu að biðja um það að fá að vera minna með börn­um en eru samt veik­ari en nokkru sinni fyrr og kenna minna og fleiri ein­hverj­ir und­ir­bún­ings­tím­ar,“ sagði Ein­ar á ráðstefn­unni, en ummælin féllu vægast sagt í grýttan jarðveg hjá kennarastéttinni og víðar.

Vilja taka Einar í kennslustund

„Við kennarar við Stóru-Vogaskóla, Vogum, Vatnsleysuströnd viljum vísa ummælum æðsta yfirmanns stærsta menntakerfis landsins, þ.e. grunnskólanna í Reykjavík um að allir kennarar landsins séu hysknir, latir og óalandi til föðurhúsanna,“ segir einnig í ályktuninni.

Þá bjóða kennararnir borgarstjóra að kíkja til sín í kennslustund og læra þar góða siði.

„Við í Stóru-Vogaskóla bjóðum Einari að koma til okkar til að læra kurteisi, hófsemi og virðingu sem hann ætti að sýna „þegnum“ sínum í Reykjavík.“

Margir kennarar hafa gagnrýnt ummæli Einars á samfélagsmiðlum og hefur borgarstjóri brugðist við með því að endurtaka nokkurn veginn það sem hann sagði á ráðstefnunni.

Hér á lesa ályktunina í heild sinni:

Ályktun vegna ummæla Einars Þorsteinssonar í garð kennarastéttarinnar

Við kennarar við Stóru-Vogaskóla, Vogum, Vatnsleysuströnd viljum vísa ummælum æðsta yfirmanns stærsta menntakerfis landsins, þ.e. grunnskólanna í Reykjavík um að allir kennarar landsins séu hysknir, latir og óalandi til föðurhúsanna.

Einar Þorsteinsson hefur farið í gegnum þetta menntakerfi og það má segja að það hafi brugðist honum. Hann hefur greinilega ekki lært almenna kurteisi!

Við í Stóru-Vogaskóla bjóðum Einari að koma til okkar til að læra kurteisi, hófsemi og virðingu sem hann ætti að sýna ,,þegnum” sínum í Reykjavík.

Með virðingu, vináttu og velgengni,

Kennarar við Stóru-Vogaskóla

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert