„Einar Þorsteinsson hefur farið í gegnum þetta menntakerfi og það má segja að það hafi brugðist honum. Hann hefur greinilega ekki lært almenna kurteisi!“
Þetta segja kennarar við Stóru-Vogaskóla í Vogum á Vatnsleysuströnd í ályktun sem þeir sendu frá sér í morgun vegna ummæla Einars Þorsteinssonar borgarstjóra sem hann lét falla á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í síðustu viku.
„Mér finnst einhvern veginn öll „statistic“ bara um skólana okkar benda til þess að við séum að gera eitthvað algjörlega vitlaust. Að kennararnir séu að biðja um það að fá að vera minna með börnum en eru samt veikari en nokkru sinni fyrr og kenna minna og fleiri einhverjir undirbúningstímar,“ sagði Einar á ráðstefnunni, en ummælin féllu vægast sagt í grýttan jarðveg hjá kennarastéttinni og víðar.
„Við kennarar við Stóru-Vogaskóla, Vogum, Vatnsleysuströnd viljum vísa ummælum æðsta yfirmanns stærsta menntakerfis landsins, þ.e. grunnskólanna í Reykjavík um að allir kennarar landsins séu hysknir, latir og óalandi til föðurhúsanna,“ segir einnig í ályktuninni.
Þá bjóða kennararnir borgarstjóra að kíkja til sín í kennslustund og læra þar góða siði.
„Við í Stóru-Vogaskóla bjóðum Einari að koma til okkar til að læra kurteisi, hófsemi og virðingu sem hann ætti að sýna „þegnum“ sínum í Reykjavík.“
Margir kennarar hafa gagnrýnt ummæli Einars á samfélagsmiðlum og hefur borgarstjóri brugðist við með því að endurtaka nokkurn veginn það sem hann sagði á ráðstefnunni.
Ályktun vegna ummæla Einars Þorsteinssonar í garð kennarastéttarinnar
Við kennarar við Stóru-Vogaskóla, Vogum, Vatnsleysuströnd viljum vísa ummælum æðsta yfirmanns stærsta menntakerfis landsins, þ.e. grunnskólanna í Reykjavík um að allir kennarar landsins séu hysknir, latir og óalandi til föðurhúsanna.
Einar Þorsteinsson hefur farið í gegnum þetta menntakerfi og það má segja að það hafi brugðist honum. Hann hefur greinilega ekki lært almenna kurteisi!
Við í Stóru-Vogaskóla bjóðum Einari að koma til okkar til að læra kurteisi, hófsemi og virðingu sem hann ætti að sýna ,,þegnum” sínum í Reykjavík.
Með virðingu, vináttu og velgengni,
Kennarar við Stóru-Vogaskóla