Skjálftahrina á Reykjaneshryggnum

Flogið yfir Eldey.
Flogið yfir Eldey. mbl.is/RAX

Töluverð jarðskjálftavirkni var á Reykjaneshryggnum í nótt en á annan tug skjálfta mældist nálægt Eldey.

Stærsti skjálftinn mældist 3 að stærð á öðrum tímanum í nótt en upptök hans voru á 9,4 km dýpi um 2,2 km norðvestur af Eldey.

„Það var smá skjálftahrina við Eldey í nótt en henni er lokið núna. Það voru engir skjálftar sem fundust í byggð,“ segir Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, við mbl.is.

Það var skjálftahrina á Reykjeshryggnum í nótt.
Það var skjálftahrina á Reykjeshryggnum í nótt. Kort/Veðurstofa Íslands

Hún segir að reglulega komi jarðskjálftahrinur á flekaskilunum á Reykjaneshryggnum.

Í gærmorgun mældust tugir skjálfta við Herðubreið. Sá stærsti var 2,2 að stærð samkvæmt yfirförnum niðurstöðum Veðurstofu Íslands.

„Þetta var nokkuð dugleg hrina vestanmegin við Herðubreið í gær en henni er lokið. Við höfum fengið hrinur á svipuðum slóðum nokkuð reglulega og þær voru áberandi í fyrrasumar,“ segir Jóhanna Malen.

Rólegt við Sundhnúkagígaröðina

Spurð út í stöðuna við Sundhnúkagígaröðina segir hún að þar sé lítið að gerast sem stendur og aðeins hafi mælst tveir skjálftar við kvikuganginn síðasta sólarhringinn.

„Það er enn þá kvikusöfnun í Svartsengi og við verðum bara að bíða og sjá,“ segir náttúruvársérfræðingurinn og bætir því við að það sé ekkert að fara að draga til tíðinda á þessu svæði á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert