Styðja tillögu Bjarna og vilja kosningar strax

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, fyrir utan Sóleyjargötu 1 rétt …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, fyrir utan Sóleyjargötu 1 rétt í þessu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði sín skilaboð til Höllu Tómasdóttur forseta vera þau að það þurfi að fara sem fyrst í að kjósa. Viðreisn styddi tillögu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra um þingrof, enda teldi hún ekki lengur starfhæfa ríkisstjórn í landinu.

Þorgerður kom til fundar við forseta á Sóleyjargötu 1 nú fyrir skömmu, en hún mætir þar önnur formanna stjórnarandstöðuflokkanna á eftir Kristrúnu Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar.

Fyrir fundinn ræddi Þorgerður stutt við fjölmiðla. Sagði hún að það oft áður hefði sú staða verið uppi að klára þyrfti ákveðin mál þrátt fyrir að ríkisstjórn væri ekki starfhæf, svo sem fjárlög. Hún sæi ekkert því til fyrirstöðu að þau yrðu afgreidd. Svo gæti næsta ríkisstjórn tekið þau upp ef þörf væri á því.

Ekki óeðlilegt að núverandi stjórn starfi áfram sem starfsstjórn

Þorgerður sagði ekki óeðlilegt að núverandi stjórn myndi starfa áfram sem starfsstjórn, en tók jafnframt fram að það væri ljóst að mikill ágreiningur innan stjórnarflokkanna og sá ágreiningur hefði vel komið í ljós undanfarið.

Þegar Þorgerður var spurð út í hvort hún teldi rétt að einhver frumvörp minnihlutans kæmust í gegn fyrir þinglok sagði hún að jafna þyrfti þingmannavægið. Þá væri hún ekki að tala um hugmyndir Viðreisnar um eitt kjördæmi og þannig jafnt atkvæðavægi um allt land, heldur að jafna þyrfti vægi landshlutanna með breytingu á jöfnunarmönnum.

Vísaði hún til þess að Ólafur Harðarson stjórnmálafræðingur hefði lengi bent á þetta og að ekki þyrfti stjórnarskrábreytingu fyrir þessu, bara lagabreytingu. Sagði Þorgerður að enginn vissi hver myndi hagnast á þessu fyrr en eftir kosningar, „en rétt skal vera rétt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert