„Teljum okkur ekki geta gefið afslátt á lýðræðinu“

Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata.
Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Arnþór

„Þótt það sé skammur tími til stefnu þá teljum við okkur ekki geta gefið afslátt á lýðræðinu og því er stefnt á að það verði prófkjör,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata við mbl.is.

Þau stórpólitísku tíðindi urðu í gær að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tilkynnti um stjórnarslit og að öllu óbreyttu verða haldnar þingkosningar í lok nóvember.

Gísli Rafn segir stemninguna góða hjá Pírötum fyrir því að boða til kosninga og hann segir flokksmenn séu spenntir fyrir því að koma ríkisstjórninni frá völdum.

Sambandið orðið stirt

Hvernig kom þessi atburðarás þér fyrir sjónir í gær?

„Ég skynjaði að sambandið á milli stjórnarflokkanna var orðið ansi stirt og þegar maður skoðaði þingmálin sem búið var að leggja fram þá voru þetta svona dagsetningarmál sem enginn var að fara að rífast um eða svona útfærslur á EES-málum. Frumvörpin sem voru komin fram voru öll með þessum máta.“

Gísli segir að bókun 35, mál sem einhverjir vildu fá að geta rifist um, hafi verið lagt fram í ríkisstjórninni fyrir um þremur vikum. Hann segir að málið hafi verið samþykkt í þingflokki Sjálfstæðismanna en Vinstri græn hafi neitað að afgreiða það. Það sé lýsandi fyrir stöðuna í ríkisstjórninni.

Með ákveðna sérstöðu í mörgum málum

Gísli segir að Píratar mæti vel undirbúnir til kosninga og hann vonar að flokkurinn nái eyrum fólks.

„Við teljum okkur vera með ákveðna sérstöðu í mörgum málum sem höfðar til fólks. Við viljum fara í að „tækla“ ýmis mál útfrá mennskunni og því hvað mannréttindi gefa þér. Það þarf að taka alvarlega til í geðheilbrigðismálum sem við höfum séð því miður að við höfum ekki stutt vel við börnin okkar sem hefur orsakað aukið ofbeldi og kvíða hjá börnum,“ segir hann.

Hann segir að það sé margt sem ríkisstjórnin hafi einhvern vegin hummað frá sér og það sé slæmt þegar menn geti ekki komið sér saman um hluti sem skiptir alla máli.

„Ég er á leið í mínar aðrar kosningar og það verður gaman að taka þátt í þeim. Kosningabaráttan 2021 var mjög sérstök. Þá vorum við í miðju covid og maður bauðst til þess að hitta fólk eða fara í vinnustaðaheimsóknir en fékk bara nei. Nú verður annað uppi á teningnum og þetta verður skemmtilegt,“ segir Gísli Rafn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert