Þarf að ræða möguleika á að skipa starfsstjórn

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, að loknum fundi með forseta Íslands.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, að loknum fundi með forseta Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að þótt flokkur hennar vilji kosningar sem fyrst og styðji að þing verði rofið, þá skipti máli hvernig hlutirnir séu gerðir og að flýta þurfi sér hægt í núverandi stöðu. Þá segir hún að kanna þurfi möguleika á starfsstjórn þangað til kosningar fari fram, en Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur lagt til að núverandi ríkisstjórn sitji fram að kosningum.

„Það skiptir máli hvernig hlutirnir verða gerðir og við þurfum að flýta okkur hægt í þessari stöðu. Það liggur til dæmis fyrir að forsætisráðherra hefur ekki enn þá beðist lausnar fyrir sína ríkisstjórn og það þarf að ræða þann möguleika hvort eðlilegra sé að setja á starfsstjórn í þessari stöðu. En þetta er bara eitthvað sem er til umræðu á þessum tímapunkti og ekkert meira um það að segja,“ sagði Kristrún að loknum fundi með Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, að Sóleyjargötu 1 rétt í þessu.

Spurð hvort hún væri þar að tala um starfsstjórn eins flokks svaraði Kristrún því að það væri ekki fyrir hana að segja til um.

Kristrún var fyrst formanna stjórnarandstöðunnar að funda með Höllu. Nú …
Kristrún var fyrst formanna stjórnarandstöðunnar að funda með Höllu. Nú fundar Halla með Þorgerði Katrínu og næst þar á eftir er Sigmundur Davíð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fólk veit hvar Samfylkingin stendur

Í gær sagði Kristrún að landsmönnum myndi gefast tækifæri í komandi kosningum  til að fá „nýtt upp­haf“ með Sam­fylk­ing­unni eða „meira af því sama.“ Bjarni svaraði því til í dag að þetta væri þekktur frasi og að Kristrún væri að reyna að setja „einhverja áferð á þetta“ en að ummæli hennar væru bara umbúðir. Þá sagði hann innihald í málflutningi Kristrúnar vera „hærri skatt­ar, stærra ríki, meiri milli­færsl­ur.“

Kristrún segir Samfylkinguna standa fyrir ábyrgri efnahagsstjórn, en að líklega verði tekist um þessi málefni á komandi vikum. „Við munum koma fram með okkar áherslur sem fyrst, fólk veit hvar Samfylkingin stendur með ábyrga efnahagsstjórn og sterka velferð, en auðvitað öfluga verðmætasköpun. Við munum án efa takast á á næstu vikum,“ sagði hún.

Halla fundar nú með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar, en eftir þann fund mun Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, koma til fundar við forseta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert