Oddný G. Harðardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, hefur komist að niðurstöðu um það hvort að hún sækist eftir oddvitasæti aftur og tilkynnir ákvörðun sína sennilega á morgun.
Þetta segir Oddný í samtali við mbl.is.
„Ég er búin að ákveða hvað ég ætla gera og ég mun tilkynna það á kjördæmisráðsfundi sem verður sennilega á morgun. Ég segi engum neitt fyrr en þá, þannig hef ég haft það. Ég er búin að vera næstum því 16 ár á þingi – nokkur kjörtímabil – og ég hef alltaf gert þetta svona,“ segir Oddný.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði í samtali við mbl.is í gær að flokkurinn myndi fara í uppstillingu til að velja á framboðslista.
Ýmsir hafa verið orðaðir við oddvitasætið hjá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi eins og til dæmis Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, Ólafur Þór Ólafsson, fyrrverandi sveitarstjóri Tálknafjarðar og fyrrverandi forseti bæjarstjórnar Sandgerðis, og Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra.