Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) fagnar ákvörðun Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, um að binda enda á ríkisstjórnarsamstarfið.
Þetta segir í ályktun sem sambandið hefur gefið frá sér.
Segir þar að Sjálfstæðisflokkurinn sé og hafi verið stærsta stjórnmálaafl á Íslandi frá lýðveldisstofnun og sé í sjálfstæðisstefnunni trú á einstaklinginn og frelsi hans til orða og athafna í öndvegi.
Þá segir einnig að með stefnufestu hafi Sjálfstæðisflokkurinn gert Ísland að fyrirmyndarríki þegar kemur að lífskjörum.
„Þegar ríkisstjórnarsamstarfið var endurnýjað undir forystu Sjálfstæðisflokksins síðastliðið vor var ákveðið að leggja áherslu á þrjá málaflokka: efnahagsmál, hælisleitendamál og orkumál. Við þinglok í vor náðist árangur í þessum málaflokkum og sést það meðal annars í því að vaxtalækkunarferlið er hafið, kyrrstaðan hefur verið rofin í orkumálum og staða hælisleitendamála hefur gjörbreyst.
Aftur á móti er ljóst að ganga þarf lengra í þessum málaflokkum, í þágu heimila og fyrirtækja í landinu. Sé ekki samstaða um áframhaldandi árangur innan ríkisstjórnarinnar er ljóst að forsendur fyrir samstarfinu eru brostnar,“ segir í ályktunni.
Þá kemur fram að engin annar flokkur geti sett Sjálfstæðisflokknum afarkosti og því sé brýnt að Sjálfstæðisflokkurinn sæki endurnýjað og sterkara umboð í kosningum svo hægt sé að veita þeim málum sem flokkurinn setur á oddinn brautargengi.
„Atkvæði greitt öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum dregur úr vægi sjálfstæðisstefnunnar. Sjálfstæðisflokkurinn óttast ekki kosningar enda stuðlar stefna og hugmyndafræði hans að öflugu atvinnulífi, sterku velferðarkerfi, viðskiptafrelsi og framförum fyrir íslenska þjóð eins og reynslan sannar.“