Vilja laun á við háskólamenntaða sérfræðinga

Magnús Þór segir kennara telja sig vanmetna.
Magnús Þór segir kennara telja sig vanmetna. mbl.is/Sigurður Bogi

Formaður Kennarasambands Íslands vill að laun kennara séu sambærileg við laun háskólamenntaðra sérfræðinga á almenna markaðnum.

Kennarar eru nú samningslausir og hafa samþykkt verkfall í alls níu skólum: fjórum leikskólum, þremur grunnskólum, einum framhaldsskóla og einum tónlistarskóla. Þá er í skoðun að boða til atkvæðagreiðslu um verkfall í einum framhaldsskóla til viðbótar.

Boðað hefur verið til fundar í Karphúsinu á morgun.

Horfa til samkomulags frá árinu 2016

„Við höfum lengi sagt það að kröfugerðin okkar sé frekar skýr og við teljum okkur geta unnið hratt og nokkuð örugglega ef að eftir því verður leitað. Staðan er auðvitað bara viðkvæm þegar við erum á þessum stað en við höfum tímann fyrir okkur,“ sagði Magnús Þór í samtali við mbl.is fyrir helgi.

„Við horfum til þess að laun kennara eigi að samsama því virði sem samfélagið vill meta starf kennara. Við teljum okkur vera á þeim stað að vera vanmetnir þar,“ bætti hann við.

„Við horfum meðal annars til samkomulags frá 2016 þar sem að horft var til þess að skoða ætti laun okkar félagsmanna við sambærilegar starfsstéttir á almennum markaði og við höfum verið að benda á það að við teljum launasetningu kennara eiga að vera sambærilega við háskólamenntaða sérfræðinga á almennum markaði og þar liggur okkar helsta markmið að við komumst á þann stað að virði starfsins sé metið á við aðra sérfræðinga, háskólamenntaða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert