Svandís: „Algjört aukaatriði“ hvaða hugtak var notað

Svandís sagði í gær að hún styddi starfsstjórn undir forystu …
Svandís sagði í gær að hún styddi starfsstjórn undir forystu formanns Framsóknar en ekki undir forystu núverandi forsætisráðherra. Það er þó ekki starfsstjórn heldur ný ríkisstjórn. mbl.is

Það er algjört aukaatriði að mati Svandísar Svavarsdóttur hvaða hugtak hún notaði þegar hún lýsti því yfir að hún væri til í að styðja „starfsstjórn“ undir forystu Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins.

Þetta kemur fram í samtali Svandísar við mbl.is.

Haf­steinn Þór Hauks­son, dós­ent við laga­deild Há­skóla Íslands, sagði í sam­tali við mbl.is fyrr í dag að þarna sé um hugtakarugling að ræða hjá Svandísi.

Með því að leggja til að formaður Fram­sókn­ar verði for­sæt­is­ráðherra sé hún í raun að tala fyr­ir mynd­un nýrr­ar rík­is­stjórn­ar sem fæli í sér aðra leið en mynd­un starfs­stjórn­ar.

Reiðubúin að sjá Sigurð leiða „millibilsástand“

Nú hafa lögspekingar stigið fram og sagt að þarna sé einhver hugtakaruglingur í gangi. Það sé ekki hægt að skipt aum forsætisráðherra í starfsstjórn. Hvað útskýrir ummælin hjá þér, er þetta bara misskilningur hjá þér?

„Mér finnst þetta nú kannski ekki skipta öllu máli nákvæmlega hvort að ég er að tala um starfsstjórn eða bráðabirgðastjórn eða einhvers konar brú yfir í nýja ríkisstjórn eftir kosningar. Minnihlutastjórn eða hvað það væri,“ segir Svandís og heldur áfram:

„Það sem er kjarni málsins er það að ég lýsti því yfir að ég væri reiðubúin til þess að sjá Sigurð Inga leiða slíkt millibilsástand. Þannig það var nú það sem ég sagði og það er algjört aukaatriði í raun og veru hvaða hugtak er þar notað að mínu mati.“

„Þessi umræða er að baki“

En það væri þá væntanlega ný ríkisstjórn ef Sigurður Ingi myndi leiða. Er það eitthvað sem er í kortunum?

„Þessi umræða er að baki. Mér fannst mikilvægt að það væri hægt að fara yfir stöðuna og ræða hana og klára samtöl sem er alltaf mikilvægt að geti gerst undir þessum kringumstæðum. Að þau geti átt sér stað án þess að þau séu trufluð þannig það verður bara að hafa sinn gang. Annars ætla ég ekki að tjá mig frekar um þetta,“ segir Svandís.

Hvað er starfsstjórn?

Haf­steinn sagði að umræðan á und­an­förn­um sól­ar­hring­um gæfi til kynna að fólk væri að rugla sam­an hug­tök­um á borð við þingrof og lausn­ar­beiðni for­sæt­is­ráðherra.

Spurður um tillögu Svandísar, um að Sigurður yrði forsætisráðherra í starfsstjórn, sagði Hafsteinn að þarna væri ekki leng­ur verið að ræða um starfs­stjórn heldur myndun nýrrar ríkisstjórnar.

„Þetta er ein­hver hug­takarugl­ing­ur,“ sagði Haf­steinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert