Birgir fer yfir sína sýn í dag

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, fundaði með Höllu Tómasdóttur forseta á …
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, fundaði með Höllu Tómasdóttur forseta á Sóleyjargötu 1 í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og forseti Alþingis, mun ræða við þingflokksformenn síðar í dag til þess að ræða stöðu þingsins. Þetta sagði hann að loknum fundi með Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, á Sóleyjargötu.

„Forseti er að hitta ýmsa til að fara yfir stöðuna í þinginu. Ég ætla ekki að greina frá því að öðru leyti hvað okkur fór á milli,“ segir Birgir.

Hann segir að starfsemi þingsins og starfsstjórn hafi verið rædd en tjáir sig ekki frekar um það.

Þingið hefur alla burði 

Hefur þú rætt við formenn stjórnarflokkanna um framhaldið?

„Nei ég hef ekki gert það. Það sem snýr að mér er það sem gerist í þinginu. Ég mun hafa samband við þingflokksformenn síðar í dag og segja þeim hvað ég sé fyrir mér í þeim efnum,“ segir Birgir.

Ertu bjartsýnn á að einhver mál klárist fyrir þinglok?

„Þingið hefur alla möguleika til þess að gera það sem þarf fyrir kjördag. Þingmenn halda umboði sínu til kjördags og geta afgreitt þau mál sem þörf er á fyrir þann tíma. Venjan hefur verið sú að þegar búið er að tilkynna þingrof þá hefur þingið einungis komið saman til að afgreiða allra nauðsynlegustu málin. Helsta álitamálið hjá okkur snýr að því hvort hægt sé að klára fjárlög. En við verðum að sjá hvernig samskipti manna verður háttað um það.“

Nú styttist í kosningar, hyggst þú bjóða þig fram?

„Ég mun greina félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík frá því þegar þar að kemur,“ segir Birgir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert