Meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar í borgarstjórn felldi í dag tillögu Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, þess efnis að borgin hætti stuðningi við hugmynd um flugvöll í Hvassahrauni, fjármögnun og annarri þátttöku í því verkefni.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins studdu tillöguna. Borgarfulltrúar Vinstri grænna og Sósíalistaflokks sátu hjá.
Starfshópur birti í byrjun mánaðar skýrslu um rannsóknir á byggingu flugvallar í Hvassahrauni.
Niðurstöður skýrslunnar voru meðal annars að veðurfarslega væri ekkert því til fyrirstöðu að fara í uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni og að svæðið væri að mestu utan skilgreindra eldstöðvakerfa.
Svandís Svavarsdóttir, fráfarandi innviðarráðherra, sagði niðurstöður skýrslunnar hafa komið sér þægilega á óvart og að þær gæfu til kynna að svæðið væri raunverulegur og góður valkostur fyrir flugvöll.
Kjartan færði rök fyrir tillögunni á fundi borgarstjórnar í dag og sagði það með ólíkindum að skýrsla um rannsóknir á byggingu flugvallar í Hvassahrauni tæki ekki mið af eldsumbrotum og eldgosum sem orðið hafa á Reykjanesskaga frá árinu 2021.
Hann benti á að Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra hefði sagst ekki reiðubúinn að fjármagna uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni enda ríki mikil óvissa um öryggi á svæðinu.