Bubbi býr sig undir síðustu stóru tónleikana

Bubbi Morthens kvengerir Esjuna sem í raun ætti ekki að …
Bubbi Morthens kvengerir Esjuna sem í raun ætti ekki að vera neinn æpandi mótsagnarprósi í metafórískum heimi þess tónlistarmanns sem upplifað hefur að húsvörðurinn kallaði hann svín þegar lyftan var biluð í laginu Svartur Afgan (í síðari tíma hreinsunum bara Afgan). Samsett mynd/mbl.is/Eyþór/Eggert

„Ég persónugeri Esjuna, í raun færi ég konuna mína yfir í Esjuna,“ segir Bubbi Morthens, einn ástsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar, í samtali við mbl.is eftir að hafa samþykkt að veita blaðamanni tíu mínútur af tíma sínum mitt í tónlistarflutningi og öðrum önnum hins einbeitta listamanns sem brátt lætur af tónleikahaldi.

Viðtalið er í heild sinni gæluverkefni Skúla Halldórssonar, ágæts samstarfsmanns þess sem hér skrifar, er velti fyrir sér textabrotinu „Esjan er komin í klæðin sín fínu/kvenleg er hún sjáðu þessa línu,“ úr laginu Útsýnið er fallegt af plötunni Lífið er ljúft frá árinu 1993 en þar hafði téður hvatamaður viðtalsins jafnan talið sig heyra rímið fín og þar á móts við lín, áður en hann reit myndatexta við forsíðumynd Morgunblaðsins í síðustu viku og varð um leið villu sinnar áskynja.

Alltaf hægt að finna ástæðu til að trufla Bubba við störf enda viðmælandi hinn skemmtnasti.

Ekki sá fyrsti

Í forspjalli að viðtalinu neyðist blaðamaður til að játa Bubba erfiða staðreynd er hann þó hafði lofað sjálfum sér snemmvors.

Föstudaginn 24. maí hélt undirritaður til Íslands til að ná söngleiknum Níu líf á fjölum Borgarleikhússins áður en sýningum lyki og ekki fór betur en svo en að tár rann niður vanga meints eitilharðs rokkara á fimmtugsaldri.

Bubbi tekur játningunni vel.

Halldóra Geirharðsdóttir túlkar Egó-Bubba og Hjörtur Jóhann Jónsson er Edrú-Bubbi …
Halldóra Geirharðsdóttir túlkar Egó-Bubba og Hjörtur Jóhann Jónsson er Edrú-Bubbi í söngleiknum Níu líf sem kalla má að komist næst Músagildru Agöthu Christie á Broadway þegar litið er til fjölda sýninga...miðað við höfðatölu auðvitað. Blaðamaður felldi tár á söngleiknum og fer með það eins og mannsmorð. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

„Já, þú ert ekki fyrstur til að hafa komist þangað, gott að heyra Atli,“ svarar Bubbi hreinskilnislega og hlær góðlátlega. Blaðamanni léttir um eina áttund – léttir manni ekki þannig þegar tónlistarmenn valda? Við höldum áfram með Esjuna og Bubbi segir frá því að réttur og frumsaminn texti hans innihaldi orðin „fínu“ og „línu“.

„Þetta hefur líka með formið á Esjunni að gera skilurðu?“ segir Bubbi og rifjar upp að hann horfði á höfuðborgardjásnið ljóðræna árum saman út um gluggann heima þegar hann bjó í Kjósinni.

„Þá var ég með annan vinkil á Esjunni fyrir framan mig og kveikjan að þessu lagi er bara konan mín,“ segir tónlistarmaðurinn og vísar til hjartagulls síns.

Tekur tíunda lífið við?

„Ef þú horfir á Esjuna frá höfninni þá sérðu að hún er mjög kvenleg, formin hennar eru þannig,“ bendir Bubbi á sem séð hefur ótrúlegustu hluti og staðreyndir í íslenskum fjöllum, ýmist að þau hafi vakað í þúsund ár eða líkist fögrum konum.

Þar með er þessi orðsifjaátylla viðtals lögð til hvílu, en Ásbjörn Kristinsson Morthens sleppur ekki alveg svona billega. Ekki strax. Hvað tekur nú við að loknum Níu lífum, það tíunda? Og verða sjötugsafmælistónleikar Bubba 6. júní 2026 hans síðustu eins og hann sagði við mbl.is í fyrravetur?

Bubbi í essinu sínu, sem þá var, á tónleikum með …
Bubbi í essinu sínu, sem þá var, á tónleikum með Egó í félagsheimilinu Stapa í Njarðvík árið 1983. mbl.is/Einar Falur

„Já já, og nú er verið að undirbúa þá, það er bara þannig. Ég mun ekki halda framar stóra tónleika eftir sjötugstónleikana,“ svarar hann.

Getur tónlistarmaður bara hætt sjötugur, geturðu bara sleppt gítarnum?

„Nei, ég mun halda áfram að semja og syngja inn á plötur, en ég mun hætta tónleikahaldi og ég lýk ferlinum þannig,“ svarar Bubbi Morthens að lokum. Kínverjar trúðu því ekki að Mao Zedong gæti dáið. Þó gerði hann það 1976. Getur Bubbi hætt að standa á sviði? Spyrjum að leikslokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert