Kennarar í reykvískum grunnskólum hafa fjölmennt fyrir utan ráðhús Reykjavíkur til að mótmæla ummælum sem Einar Þorsteinsson borgarstjóri lét falla á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.
„Einar, er ekki bara best að hlusta á kennara!!!“ segir á einu skilti mótmælanda.
Inni í ráðhúsinu stendur yfir borgarstjórnarfundur. Ekki er þó víst að Einar heyri kröfur kennara þar sem hann er í Mexíkó þessa stundina. Til stóð að Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri og formaður borgarráðs, myndi ræða við mótmælendur í fjarveru Einars.
Beiðni Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að gera hlé á fundarsköpum var þó samþykkt svo borgarfulltrúar gætu rætt við kennara.
Ummæli Einars sem vöktu úlfúð meðal kennara eru eftirfarandi:
„Mér finnst einhvern veginn öll „statistic“ bara um skólana okkar benda til þess að við séum að gera eitthvað algjörlega vitlaust. Að kennararnir séu að biðja um það að fá að vera minna með börnum en eru samt veikari en nokkru sinni fyrr og kenna minna og fleiri einhverjir undirbúningstímar.“
Borgarstjórinn birti í gærkvöldi grein á Vísi þar sem hann sagði að honum þætti leitt að þeir hefðu túlkað orð hans þannig að hann bæri ekki virðingu fyrir þeirra störfum. „[Þ]ví fer fjarri.“
Dæmi eru um að kennarar hafi gengið út úr kennslustofum og fengu foreldrar nemenda í sumum skólum í Reykjavík orðsendingu þess efnis að kennsla myndi falla niður.
Samkvæmt heimildum mbl.is eru ekki kennarar úr öllum skólum í Reykjavík sem taka þátt í aðgerðunum. Í einhverjum tilfellum voru skólastjórnendur á báðum áttum hvort kennurum væri heimilt að ganga út. Óháð því ákváðu margir skólastjórnendur að heimila útgönguna.
Í einhverjum skólum var kennsla felld niður en í öðrum var ákveðið að gera það ekki. Helgast það af því að misjafnt var hve margir kennarar fóru á staðinn til að mótmæla. Í sumum tilfellum fóru það margir að ekki var hægt að halda uppi kennslu.