Gerir ráð fyrir tveggja flokka starfsstjórn

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Nú kem ég hingað í ljósi þess að meirihlutasamstarfinu er lokið. Ég fékk það endanlega staðfest um sexleytið í gær að vinstri grænir vilji ekki halda áfram meirihlutasamstarfinu fram í kosningar eins og ég hafði lagt upp með.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, er hann gekk á fund Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, á Bessastöðum í dag.

Sagðist hann vera kominn á Bessastaði til að biðjast lausnar fyrir sig og sitt ráðuneyti.

„Þetta hafði ég sagt strax frá upphafi að kæmi til greina ef menn vildu ekki starfa í þeim tilgangi að ná utan um einhver ákveðin mál sem þriggja flokka stjórn.“

Skynjað lítinn áhuga hjá VG

Hann kveðst gera ráð fyrir því að Halla muni óska eftir því að starfsstjórn taki við.

Spurður hvort Vinstri græn muni taka þátt í þeirri starfsstjórn segist Bjarni ekki geta svarað fyrir þeirra hönd. 

Honum hafi þó heyrst á yfirlýsingum VG að lítill áhugi sé á því. 

Er því útlit fyrir að starfsstjórnin verði aðeins skipuð Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.

Bjarni kveðst enn gera ráð fyrir því að kosið verði 30. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert